131. löggjafarþing — 67. fundur,  7. feb. 2005.

Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

495. mál
[17:44]

Halldór Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ef ég tek dæmi af sveitarfélögum þar sem ég er kunnugastur, annars vegar af Skútustaðahreppi sem á að sjá um Mývatnssvæðið og hins vegar af Þingeyjarsveit, þá er alveg ljóst að fjárhagur þessara fámennu byggðarlaga er ekki með þeim hætti að rétt sé að leggja jafnþungar byrðar á þau eins og gert er með því að ætlast til að þau standi undir minkaveiðinni að svo miklu leyti sem raun hefur orðið á. Það má auðvitað velta fyrir sér hvort rétt sé að sveitarfélög taki þar nokkurn þátt, en þær reglur verða þá að vera aðrar en nú eru og eitthvert samræmi á milli stærðar sveitarfélaga, umfangs landsins og þess fjölda sem býr í sveitarfélögunum.