131. löggjafarþing — 67. fundur,  7. feb. 2005.

Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

495. mál
[17:45]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar til að beina einni spurningu til hv. þm. Halldórs Blöndals er varðar efni ræðu hans áðan. Hann lagði til að menn íhuguðu aðgerðir sem miðuðu að því að friða svæðið þar sem endur halda sig yfir vetrartímann, þær finna sér búsvæði á vatni sem ekki er frosið og leita sér jafnvel griða. Þá rifjaðist upp fyrir mér að hv. þingmaður er með frumvarp í þinginu um breytingu á lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum sem er til umræðu í dag, þar sem hann legur til að andaveiðitíminn verði styttur, þ.e. veiðitíminn á sjö andategundum, frá því að vera frá 1. september til 31. mars í að vera frá 1. september til 31. desember. Ber að túlka það svo að tillaga hv. þingmanns nú um að menn íhugi þær reglur að friða ákveðin svæði fyrir skotveiðum á öndum, að hann hafi fallið frá frumvarpi sínu sem liggur á hinu háa Alþingi? Ég fæ trauðla séð að það sé þörf á frumvarpinu ef við grípum til þeirra ráða að friða víðfeðm svæði yfir vetrartímann gegn öllum veiðum á öndum.