131. löggjafarþing — 67. fundur,  7. feb. 2005.

Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

495. mál
[18:13]

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og ég rifjaði upp áðan vildi ég á sínum tíma, Skotvís og afar margir fá sölubann. Það mál var flutt í þinginu, sama mál sem er verið að flytja eiginlega núna. Því var hafnað af þinginu, þannig að það var ekki hægt að nota neitt sölubann. (Gripið fram í.) Meiningin var þá að reyna að hemja magnveiðimennina með sölubanninu. Einnig kom í ljós að stofninn var slakur. Hann var svo slakur, hann var svo rosalega slakur að okkar færustu fuglasérfræðingar sem vinna á Náttúrufræðistofnun, í stjórnsýslu okkar, ráðlögðu fimm ára veiðibann með endurskoðunarákvæði eftir þrjú ár. Það var mitt val af því að ég bar þá pólitíska ábyrgð á rjúpnastofninum. Það var mitt val að hlusta á þessa færustu fuglasérfræðinga landsins og ákvað veiðibann til þriggja ára. Það hefði verið hægt að framlengja því ef þörf hefði verið á um tvö ár, þá hefði veiðibann verið í fimm ár.

Núna er ljóst að stofninn hefur verið að rétta verulega úr sér. Með því að fara þá leið sem hér er lögð til, þ.e. að fá loksins þetta sölubann — það verður gaman að sjá þegar þingmenn greiða atkvæði um það — og að geta gripið til fleiri aðgerða sem hafa verið nefndar, dagalokanir o.s.frv., þá er það von núverandi hæstv. umhverfisráðherra að hægt verði að hafa veiðarnar með sjálfbærum hætti. Ég held að allir ættu að fagna því. Og það var mjög ómaklega vegið að sérfræðingum Náttúrufræðistofnunar á sínum tíma, og ég heyri að hv. þingmaður er nánast að fara í sama leik aftur, en þeir hafa staðið sig vel og verið með öflugar rannsóknir og góða ráðgjöf.