131. löggjafarþing — 67. fundur,  7. feb. 2005.

Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

495. mál
[18:16]

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það verður ekki undan því flúið að viðurkenna að stofninn stóð svo illa á þessum tíma að okkar mati … (SigurjÞ: … ekki verr en hann var áður.) og öll sókn gjörbreytt. Hv. þingmaður veit að fólk er löngu hætt almennt að ganga til rjúpna. Við erum með allt önnur tæki í dag, komumst yfir miklu meira svæði. Það er ekki sambærilegt hvernig veiðarnar voru fyrir tveimur árum og fyrir 10 árum, það er bara ekki sambærilegt. Það hefur stórbreyst. Fleiri veiðimenn komast yfir miklu stærra svæði, eru líklega með öflugri vopn og sumir hafa hunda. Einhverjir telja þá mjög slæma gagnvart veiðunum, menn veiði meira en aðrir segja að það sé vitleysa. Ég veit ekki nákvæmlega hvað er rétt í því. En það var alveg ljóst að okkar færustu fuglasérfræðingar á Náttúrufræðistofnun Íslands ráðlögðu í ljósi þess hvað stofninn var slakur, sveiflurnar að sléttast út og veiðarnar ekki sjálfbærar, fimm ára veiðibann.

Það var að sjálfsögðu mín pólitíska ábyrgð á þeim tíma að grípa til þess. Þeir ráðlögðu ekki einhver vægari úrræði. Þeir ráðlögðu fimm ára algjört veiðibann (Gripið fram í.) með endurskoðun eftir þrjú ár. Að sjálfsögðu tók ég sem ábyrgur ráðherra á þeim tíma mark á þessum sérfræðingum. Núna verður sölubannið vonandi samþykkt, hugsanlega gripið til fleiri takmarkana sem líklega er ástæða til og menn geta þá hafið veiðar og tryggt að þær séu sjálfbærar. Aðalatriðið er að við getum veitt rjúpu til langs tíma án þess að fara þannig með stofninn að það þurfi að friða hann alltaf inn á milli. Ég teldi það vera skaða ef við þyrftum að friða hann alltaf inn á milli.