131. löggjafarþing — 67. fundur,  7. feb. 2005.

Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

495. mál
[18:36]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi sölubannið tel ég, eins og ég vona að hafi komið skýrt fram í máli mínu áðan, að það sé óþarfi og markleysa. Ég á mjög erfitt með að sjá fyrir mér að þær aðstæður komi upp að veiðimenn á einhverjum tíma muni geta sett í gang svo stórkostlegar magnveiðar sem kallað er sér til efnahagslegs ávinnings að slíkar veiðar mundu setja tiltekna stofna í hættu og ógna almannahagsmunum. Við verðum að vanda okkur þegar við setjum lög sem ég tel í þessu tilfelli að skerði atvinnufrelsi og við eigum að forðast að setja einhver ákvæði í lög sem eru kannski óþarfi. Ég tel að hægt væri að koma í veg fyrir slíka magnveiði ef lögin væru með þeim hætti að veiðimenn sæju enga ástæðu til að falsa veiðitölur sér til hagsbóta heldur teldu fram það sem þeir veiddu. Stjórnvöld gætu þá gripið inn með aðgerðir ef þau teldu að stofninum væri á einhvern hátt ógnað, til að mynda með svæðafriðunum í nokkra mánuði eða jafnvel lengri tíma eða þá aðrar aðgerðir t.d. hvað varðar þau tæki og tól sem notuð eru við veiðarnar. Þetta ætti alveg að duga.

Við megum ekki vera of áköf í því að setja frelsi fólks takmörk og ég tel að sölubannið sé alger óþarfi frá friðunarlegum sjónarmiðum séð.