131. löggjafarþing — 67. fundur,  7. feb. 2005.

Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

495. mál
[18:39]

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Sölubanni hefur verið beitt erlendis með góðum árangri og við erum auðvitað ekki að finna upp hjólið hvað þetta snertir. Við erum að líta til reynslu annarra þjóða og staðreyndin er sú að hér á landi veiddu svokallaðir magnveiðimenn, sem eru um 10% af rjúpnaveiðimönnum, helming af þeirri rjúpu sem veidd var. Það er því alveg ljóst að það þurfti að ná til magnveiðimannanna og svo ég vísi beint í 3. gr. segir þar, með leyfi forseta:

„Umhverfisráðherra er heimilt með reglugerð, þegar friðun einstakra fuglategunda er aflétt í samræmi við ákvæði 17. gr., að banna sölu á þeim fuglum og afurðum þeirra, enda sé talin hætta á að viðkomandi stofn þoli ekki ótakmarkaða veiði innan leyfilegs veiðitímabils.“

Þetta segir allt sem segja þarf. Og að sjálfsögðu ber að nýta slíkar heimildir af hófsemd og skynsemi.