131. löggjafarþing — 68. fundur,  8. feb. 2005.

Athugasemd.

[13:34]

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég var bara sallarólegur að borða saltkjöt og baunir og átti á engu illu von í góðum vinskap með þingmönnum og svo þegar ég kem inn í þingsalinn hefst mikil umræða um að mál vanti í landbúnaðarnefnd. Það er alveg hárrétt að þau eru ekki enn komin þangað en eitt frumvarp um Hólaskóla er núna í þingflokkunum. Þau mál sem við höfum boðað eru enn í vinnslu. Það er langt til vors eins og menn þekkja þannig að það er alls hins besta að vænta hvað það varðar.

Hins vegar hefur legið fyrir af minni hálfu að við vorum í miklum málflutningi á síðasta þingi og miklum breytingum. Ráðuneytið hefur verið undirlagt í vinnu við stofnun Landbúnaðarháskóla Íslands og miklar breytingar. (Gripið fram í.) Nei, ráðuneytið er fáliðað þannig að það er mikið álag á embættismönnum mínum og það hefur alveg legið fyrir í vetur að ekki yrði mikið um mál af minni hálfu að ræða, þau væru mörg í undirbúningi og vinnslu, bæði lax og silungur. Ég mun halda áfram með stofnanabreytingar þannig að hér verður mikið að gera næsta haust þegar ég kem til þings aftur. Þá verða hér mörg mál. Þau verða hins vegar ekkert mjög mörg á þessum vetri og það er kannski ekkert alltaf aðalmálið að fylla allar nefndir af málum þegar atvinnugreinin er í jafnágætri þróun á mörgum sviðum og hún hefur verið, og mikil nýsköpun í íslenskum sveitum.

Ég bið menn að halda ró sinni. Mér finnst að menn þurfi ekki að fara á taugum yfir þessu. Landbúnaðarnefnd getur þá sinnt öðrum og ágætum verkefnum sem eru mikilvæg. Við skulum sjá hvað gerist á næstu vikum hvað mín mál varðar, a.m.k. eitt er komið til þingflokkanna.