131. löggjafarþing — 68. fundur,  8. feb. 2005.

Athugasemd.

[13:43]

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Út af ræðu hv. þm. Magnúsar Þórs Hafsteinssonar vil ég segja að hann hefði mjög auðveldlega getað aflað sér þeirra upplýsinga að formaður landbúnaðarnefndar hefur lögmæt forföll. Hún er við jarðarför og ég veit að hv. þingmenn skilja mætavel að þar með er hún auðvitað ekki í þingsalnum til að taka þátt í þessum umræðum. Hv. þingmaður dró sérstaklega nafn hennar og verkskyldu inn í umræðuna. Ég veit það og við þekkjum það af góðri reynslu af störfum hv. þingmanns sem formanns landbúnaðarnefndar að hún hefur sinnt þeim ákaflega vel. Hún hefur tekið fyrir þau mál sem hafa legið fyrir af hálfu nefndarinnar og ég veit að hún hefur haft áform uppi um að taka fyrir einstök mál sem eru nauðsynleg og þarf að ræða á vettvangi landbúnaðarnefndarinnar. Þingið er tiltölulega nýkomið saman eftir áramótin og kannski hafa ekki gefist mörg tækifæri til að halda gríðarlega marga fundi í þessum einstöku nefndum.

Varðandi sjávarútvegsnefndina vil ég vekja athygli á því að hún fór í ákaflega góða ferð og heimsótti fyrirtæki í fiskvinnslu á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjunum. Ég átti þess kost að sitja hluta af þeim fundum og fara í hluta af þeim heimsóknum. Það var mjög upplýsandi og hið sama var á síðasta fundi sjávarútvegsnefndar þar sem við fórum yfir mál sem hafði verið vísað til okkar og óskað eftir að við færum ofan í. Þetta er auðvitað mjög til góðs. Það er alveg rétt sem hér hefur verið sagt að þingnefndir geta tekið fyrir önnur mál og ég veit að það hefur verið gert í tímans rás. Þegar þannig hefur staðið af sér að ekki hafa mjög mörg mál legið inni á borðum nefndarinnar hefur það æðioft gerst að nefndirnar hafa tekið þessi mál upp.

Ég tel fráleitt að segja að ekki sé eðlilega unnið í þessum nefndum. Ég hef ekki orðið var við annað en að nefndirnar skili málum ágætlega af sér. Það er hins vegar ástæða til að hvetja til þess, hvort sem um er að ræða ríkisstjórn eða óbreytta þingmenn, að menn reyni að leggja málin fram sem fyrst til að við höfum tækifæri til að fara yfir þau rækilega, m.a. í nefndunum og hér á vettvangi þingsins. Ég hef sjálfur m.a. hvatt til þess að við reyndum að skapa rými fyrir þingmannamál. Þá verða menn auðvitað líka að reyna að tryggja að almennar umræður fari fram um þessi mál en ekki stilla þannig af umræður sínar í þingsölum að reynt sé að koma í veg fyrir að önnur mál en þau sem þeim eru þóknanleg séu hér til umræðu.