131. löggjafarþing — 68. fundur,  8. feb. 2005.

Athugasemd.

[13:50]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Umræðan um verkfælni landbúnaðarráðherra og húskarla hans er allrar athygli verð í skammdeginu, hvort sem skýringanna er að leita í ofþreytu frá sl. vori eða önnum við þorrablótshald. Hitt er mér til efs að það sé mjög gáfulegt að vera að lýsa eftir því að landbúnaðarráðherra geri meira en hann gerir. Einhvern tíma var sagt norður í landi að það væri vont að hroðvirkir menn væru jafnframt mjög duglegir því að þá gerðu þeir svo mikið illa.

Það er líka þetta með hinn margfræga hraða snigilsins að ég hélt að það væri ávísun á frekar jafnt og þétt ferðalag þó að rólega væri farið yfir. En hér virðist snigillinn ekki bara hreyfa sig hægt heldur líka skrykkjótt því að það koma smágusur af málum frá sniglinum yfirleitt undir lok þings (Gripið fram í: Hann er farinn að sofa.) og eru knúin í gegn, oft að lítt athuguðu máli, samanber afgreiðsluna á jarðalögum og ábúðarlögum sl. vor.

Það er að vísu rétt að þingmenn eru náttúrlega að hluta til að gagnrýna sjálfa sig ef þeir kvarta undan verkleysi, verkefnaleysi og fundaleysi í þingnefndum því að þingmenn hafa það í sínum höndum að óska eftir fundum í nefndum og ráða dagskrá nefndarfunda og þarf ekki nema þrjá þingmenn til.

Hitt vil ég líka nefna, frú forseti, að mér sýnist að það sé að gerast æ oftar að reglubundnum fundum þingnefnda sé frestað æ ofan í æ og síðan jafnvel skotið á aukafundum. Ég nefni sem dæmi utanríkismálanefnd. Þar hafa verið talsverð brögð að því að reglulegum fundum er frestað og síðan jafnvel boðað til aukafundar. Það er að mínu mati ekki eins og hlutirnir eiga að þróast. Það á að vera festa í þessum hlutum og starfsáætlun þingsins og fastir fundartímar nefnda eiga að halda. Annað á að vera undantekningin. Ég kannast ekki við að það sé ekki yfirleitt nóg af verkefnum ef út í það er farið, áhugaverðum stöðum til að skoða, heimsækja o.s.frv.

Svo vona ég bara að umræðan hafi ekki spillt meltingu hæstv. landbúnaðarráðherra á saltkjötinu.