131. löggjafarþing — 68. fundur,  8. feb. 2005.

Stjórn fiskveiða.

362. mál
[14:23]

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson fór yfir frumvarpið, algjörlega, þannig að ég ætla ekki að endurtaka það. Ég tek undir það sem hann sagði um þá hluti, nema það að ég vil aðeins bæta við í sambandi við umræðuna um veiðigjaldið. Ég hef aldrei verið sáttur við þá aðferð.

Vissulega er það rétt að við bentum hér ýmsir á að það gæti líka komið í bakið á mönnum að hafa þetta fyrirkomulag. Þó að veiðigjaldið væri lágt gæti það komið illa niður á þeim sem ættu í erfiðum rekstri. Og það hefur sýnt sig strax, þó að veiðigjaldið sé ekki orðið hærra en raun ber vitni, að það getur íþyngt til viðbótar þegar um er að ræða mjög slakan rekstur.

En mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra fáeinna spurninga úr því að tækifæri er til þess. Mig langar að spyrja um það hvort í ráðuneytinu hafi ekkert verið farið yfir það að undanförnu hvort ástæða sé til að endurskoða þá slægingarstuðla sem eru í gangi og jafnvel afnema það fyrirkomulag, því að það er auðvitað furðulegt að menn skuli varla geta fundið vog sem er nógu nákvæm til að mæla þyngd þorsks eða annarra fisktegunda, en svo skuli vera hægt að nota aðferðir sem eru fólgnar í því að giska á hvað fiskurinn er þungur með innvolsinu til að finna út þyngdina. Ég hef aldrei skilið almennilega hvernig á því stendur að ráðuneytið hefur látið undan þeim þrýstingi sem hefur verið til þess að hafa þetta fyrirkomulag áfram. Ég hvet því hæstv. ráðherra til að fara yfir það og vil biðja hann að svara því hvort slík athugun sé í gangi.

Síðan langar mig að spyrja hæstv. ráðherra um 6. gr. þar sem um er að ræða að festa í sessi 0,5% af uppsjávarafla og 5% af öðrum sjávarafla sem menn geta landað utan kvóta. Ég tek til að byrja með undir það að gjarnan mætti vera hærri prósenta þarna á ferðinni. Hef reyndar þá skoðun og hafði það í tillögu minni á sínum tíma að þarna þyrfti enga prósentu, menn ættu bara að geta landað því utan kvóta sem þeir yrðu fyrir að fá í skip sín og ég sé enga hættu fólgna í því. Hafrannsókanstofnunin fengi kannski stærri farma á stundum en það er ekki nein sérstök hætta á ferðum. Verið er að stjórna fiskveiðum með ýmsum hætti hér við land, sérstaklega með sóknartakmörkunum. Flestar stýringarnar eru í formi sóknartakmarkana, þannig að Hafrannsóknastofnun hefur ýmis ráð til að stjórna veiðiálaginu.

En ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort einhver vandi hafi komið upp í sambandi við 2. tölulið 6. gr., þ.e. að aflinn sé seldur á viðurkenndum uppboðsmarkaði fyrir sjávarafurðir og andvirði hans renni til sjóðs o.s.frv. Þetta þótti mönnum sjálfsagt að hafa í lögunum þegar það varð niðurstaðan að setja þá reglu að aflinn skyldi fara á fiskmarkaði. Það er nefnilega þannig að menn sáu ýmis vandkvæði á því að afli færi á fiskmarkaði ef farið væri að ræða um annan afla en þennan. Hérna voru menn sammála og mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort einhver vandamál hafi komið upp í sambandi við þetta önnur en þau sem menn vissu fyrir, þ.e. að sums staðar væri ekki nægileg þjónusta á fiskmörkuðum. Á sumum svæðum landsins er ekki um auðugan garð að gresja hvað þá varðar, sem engan skyldi nú furða vegna þess að það fer nú ekki það stórt hlutfall af fiskinum í gegnum markaði í landinu, því miður.

Úr því að ég er kominn í ræðustól og farinn að spyrja hæstv. ráðherra sé ég ástæðu til að spyrja um eitt atriði, vegna þess að nú er búið að setja í gang vinnu og nefndin að mér skilst hefur hafið störf sem á að vinna að endurskoðun stjórnarskrárinnar og ríkisstjórnin hefur á stefnuskrá sinni að sameiginlegt eignarhald á fiskinum í sjónum verði sett í stjórnarskrána. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvaða breytingar hann sjái fyrir sér að verði á stjórn fiskveiða í tengslum við það að ákvæði af því tagi verði sett í stjórnarskrá. Telur hæstv. ráðherra að mögulegt verði að óbreytt fyrirkomulag á úthlutun aflaheimilda verði til framtíðar ef þetta ákvæði verður sett í stjórnarskrá og hvernig yrði því þá fyrir komið? Ég geri ráð fyrir að hæstv. ráðherra hafi legið nokkuð yfir þessum hlutum því að bæði er hann aðili að ríkisstjórninni og svo dregur að því að menn fari að fást við þetta mál í stjórnarskrárnefndinni og ég geri ráð fyrir að umræða fari fram um þessi mál í ríkisstjórn og í stjórnarflokkunum. Menn hljóta að vita svona nokkuð hvað þeir hugsa sér þar.

Það er ástæða til að spyrja um þetta vegna þess að ítrekað koma aðilar inn í umræðuna eins og hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson, og í Morgunblaðinu í dag er Viðhorfsgrein eftir Björgvin Guðmundsson þar sem hann kallar eftir því að fullur eignarréttur verði að myndast á veiðirétti og ítrekað höfum við séð það á vefnum 200milur.is að nú sé kominn tími til að eignarrétturinn verði gerður algjör. Svo eru tínd til rökin að með eignarréttinum muni þetta allt saman nýtast öllum betur. Það virðist gleymast að með fullkomnum eignarrétti fylgja auðvitað fullkomin afnotaráð veiðiréttarins sem þýðir um leið að það er engin skylda á viðkomandi að nýta veiðiréttinn. Þar með eru öll rökin sem hafa verið tínd fram til stuðnings þess að eignarhaldið skipti svo gríðarlega miklu máli vegna nýtingarinnar fokin, af því að það er auðséð að hverju stefnir ef eignarhaldið verður viðurkennt í framtíðinni og verður algert. Það stefnir í að til verði fyrirtæki sem muni eiga fiskstofnana og selja aðganginn að miðunum.

Þar með eru rökin sem menn hafa aðallega hangið á í sambandi við að menn muni nýta betur fiskstofnana af því að þeir eigi þá og þurfi að hugsa um hagnað sinn í framtíðinni komnir yfir á þá sem leigja veiðiheimildirnar af þeim. Hver er þá orðinn munurinn á því að eigandinn leigi frá sér veiðiréttinn, eins og væri eðlilegt til að viðhalda sameiginlegri eign þjóðarinnar á auðlindinni? Hver er þá orðinn munurinn á þessu tvennu?

Ég ætla ekki að hafa langt mál en mér finnst full ástæða til að menn fari að sýna á spilin sín í umræðunni. Það fari að koma pólitísk skilaboð inn í hana því stjórnarskrárnefndin hefur verið skipuð, hún er farin að vinna eftir því sem ég veit best.

Eitt verkefni ætti þó ekki að þurfa að deila um að ætti að vera opinberlega í umræðunni og það er þegar Íslendingar fara yfir og ræða breytingar á stjórnarskránni. Það getur ekki verið að menn ætli að fara með veggjum með skoðanir sínar hvað menn vilja setja í stjórnarskrá, hvorki um þetta efni né annað.

Ég er spenntur að heyra hvað hæstv. sjávarútvegsráðherra segir um þetta. Er hann ekki fyrir löngu búin að koma sér upp skoðunum á því með hvaða hætti eignarhaldsákvæðunum verður fyrir komið í stjórnarskránni úr því að hann tók þátt í því að setja það í ríkisstjórnarsáttmálann?