131. löggjafarþing — 68. fundur,  8. feb. 2005.

Stjórn fiskveiða.

362. mál
[14:33]

sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við höfum oft rætt slægingarstuðlana áður og hv. þingmaður veit að ég geri mér fullkomlega grein fyrir því hversu ónákvæmir þeir geta verið. En ég geri ráð fyrir að hann hafi tekið eftir því að í reglugerð sem hefur verið í smíðum um löndun og vigtun á afla og kynnt var á netinu sl. vor er verið að koma til móts við þetta vandamál þannig að hægt sé í einhverjum tilfellum að vigta afla eftir slægingum.

Ekki hafa komið upp nein sérstök vandamál varðandi uppboð á 5% aflanum, en hversu víðtækar ályktanir ætti að draga af þeim afla sem þannig hefur verið boðinn upp og yfirfæra það á heildarafla landsmanna, ég held að fara verði afskaplega varlega í það.

Varðandi breytingar á stjórnarskránni vil ég segja að verði þær breytingar gerðar sem samrýmast því sem er í 1. gr. laganna um stjórn fiskveiða sé ég ekki að þær muni leiða til neinna sérstakra breytinga á lögum um stjórn fiskveiða. Ég er reyndar hissa á því að hv. þingmaður skuli gera ráð fyrir því. Ég skil það svo af málflutningi hans og flokksmanna hans að þær hugmyndir sem uppi eru af þeirra hálfu væru að koma í stjórnarskrána atriðum sem væru í samræmi við 1. gr. laganna um stjórn fiskveiða.