131. löggjafarþing — 68. fundur,  8. feb. 2005.

Dómstólar.

12. mál
[14:38]

Flm. (Lúðvík Bergvinsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum um dómstóla, nr. 15/1998, ásamt hv. þingmönnum Bryndísi Hlöðversdóttur, Guðmundi Árna Stefánssyni, Einari Má Sigurðarsyni, Þórunni Sveinbjarnardóttur, Jóhanni Ársælssyni, Jóhönnu Sigurðardóttur, Önnu Kristínu Gunnarsdóttur, Guðrúnu Ögmundsdóttur, Jóni Gunnarssyni, Ástu R. Jóhannesdóttur, Rannveigu Guðmundsdóttur, Kristjáni L. Möller og Katrínu Júlíusdóttur.

Frumvarpið hefur verið flutt í tvígang, á löggjafarþingum 125 og 126. Í stuttu máli er í frumvarpinu lagt til að gerð verði sú breyting á skipun hæstaréttardómara að í stað þess fyrirkomulags sem nú tíðkast, að hæstv. dómsmálaráðherra geri tillögur til forseta Íslands um skipun dómara, komi Alþingi Íslendinga að skipan dómara og áður en gerð er tillaga til forseta skuli Alþingi Íslendinga eða 2/3 þeirra sem atkvæði greiða styðja þá tilnefningu sem lögð er til.

Í frumvarpinu er lagt til að í stað dómsmálaráðherra geri forsætisráðherra tillögu til þingsins um hvern skuli skipa í Hæstarétt og tilkynni forseta Alþingis um það. Tillaga ráðherra skal hljóta meðferð í sérnefnd samkvæmt 32. gr. laga um þingsköp Alþingis áður en hún er borin undir atkvæði þingmanna. Nefndin skal fjalla um hæfni umsækjenda um embættið og skila skýrslu til þingsins með rökstuddri niðurstöðu um mat sitt innan fjögurra vikna. Jafnframt skal nefndin leita umsagnar Hæstaréttar um hæfi og hæfni umsækjenda til að gegna embættinu. Samþykki Alþingi tillögur ráðherra leggur hann hana fyrir forseta og synji Alþingi staðfestingar á tillögu ráðherra gerir hann aðra tillögu og skal hún fá sömu meðferð.

Grundvallarhugsunin á bak við þá hugmynd sem hér er lögð fram er fyrst og fremst að reyna að styrkja dómsvaldið í landinu. Það þarf ekki að hafa um það mörg orð að sú mikla umræða sem fram hefur farið undanfarin missiri um skipan hæstaréttardómara hefur ekki verið til þess fallin að styrkja dómsvaldið í landinu. Það er geysilega mikilvægt að dómsvaldið sé sjálfstætt og öflugt og hafi þann styrk ef svo má að orði komast að á því leiki enginn vafi.

Ég ætla ekki að gera mikið úr skipun síðustu dómara við réttinn í þessari umræðu, vegna þess að sú umræða sem fram fór um þá skipan var ærin og mikil og dró fram hve mikilvægt er að skipan hæstaréttardómara sé gerð á breiðum grundvelli og hafi almennan og mikinn stuðning. Ég lít svo á, og þeir þingmenn sem flytja málið með mér, að með því að fá Alþingi ákveðið hlutverk við skipan hæstaréttardómara sé verið að styrkja Hæstarétt og með því að 2/3 þingmanna Alþingis samþykki skipan hæstaréttardómara sé verið að tryggja, auka og efla sjálfstæði dómstólanna.

Í greinargerð frumvarpsins segir :

Þrátt fyrir að hugmyndin um þrígreiningu ríkisvalds gangi ekki ómenguð í gegnum stjórnskipunina verður því ekki á móti mælt að hún er sú hugsun sem býr að baki skiptingu ríkisvaldsins. Samkvæmt 2. gr. stjórnarskrárinnar fara dómendur með einn þátt ríkisvaldsins — dómsvaldið. Samkvæmt hefðbundnum skilningi felur dómsvald í sér heimild eða vald til að skera úr tilteknum réttarágreiningi; kveða á um hvað sé rétt eða rangt lögum samkvæmt í hverju tilviki og komast að niðurstöðu í þeim málum sem undir dómsvaldið eru borin með lögmætum hætti. Það er því mikið vald sem mönnum er falið að fara með þegar þeir eru skipaðir til setu í æðsta dómstól landsins, Hæstarétti Íslands.

Það fyrirkomulag sem tíðkast hefur hér á landi við skipun hæstaréttardómara hefur gefið þeirri umræðu byr undir báða vængi að skipað sé í réttinn pólitískt og breytir engu hvaða ráðherra hefur átt í hlut hverju sinni. Það væri enn fremur fásinna að halda því fram að það skipti ekki máli fyrir þá sem í ríkisstjórn sitja hverju sinni hvaða viðhorf það fólk hefur sem sest í réttinn. Í þessu samhengi má minna á að deilur hafa lengi verið uppi meðal lögfræðinga, bæði hérlendis og erlendis, um það hversu langt dómstólar geta farið inn á svið löggjafans og endurskoðað ákvarðanir hans. Enn fremur hefur lengi verið deilt um hversu langt dómstólar geta gengið inn á það svið sem kallað hefur verið frjálst mat stjórnvalda við ákvarðanatöku og endurskoðað ákvarðanir þeirra, sbr. 60. gr. stjórnarskrárinnar um embættistakmörk yfirvalda.

Það er skoðun flutningsmanna að það sé miklum mun heilbrigðara að umræðan um það hver verði skipaður hæstaréttardómari, forsendur skipunarinnar og hver séu viðhorf dómara til þeirra grundvallaratriða sem lúta að hlutverki dómstóla og samskiptum þeirra við aðra handhafa ríkisvaldsins séu opinberar í stað þess að forseti Íslands skipi í réttinn að fenginni tillögu dómsmálaráðherra að undangenginni umsögn Hæstaréttar eins og nú er. Þetta þýðir í reynd að dómsmálaráðherra fer með þetta vald eða gerir í það minnsta tillögu til forseta um það hvern hann skuli skipa. Þetta gerist jafnan án opinberrar umræðu eða skoðunar. Það er enn fremur skoðun flutningsmanna að sú skipan sem hér er lögð til, þ.e. að Alþingi komi að skipun hæstaréttardómara sé til þess fallin að styrkja réttinn frá því sem nú er og gera hann enn sjálfstæðari. Það er ekki vafi á því að mati flutningsmanna að aukið sjálfstæði dómstóla sé aðeins til þess fallið að efla og styrkja trú manna á lýðræðið og stjórnskipun landsins. Því er þetta frumvarp lagt fram.

Virðulegi forseti. Ég hef gert grein fyrir helstu atriðum þess frumvarps sem við hv. þingmenn leggjum fram sem gengur í stuttu máli út á það að 2/3 hluti þingmanna þarf að samþykkja tilnefningu forsætisráðherra um skipun dómara. Að minni hyggju og flutningsmanna er það fyrirkomulag sem nú þekkist ekki ásættanlegt. Það tíðkast ekki víða að einn tiltekinn ráðherra hafi það vald að skipa dómara í réttinn. Það er miklu eðlilegra að umræða um þá sem eru skipaðir fari fram fyrir opnum tjöldum meðal þingmanna um kosti og galla, um viðhorf viðkomandi dómara og hvernig þeir kunna að hafa áhrif á þróun réttarins.

Það er mikilvægt að við tökum opna og heiðarlega umræðu og að Alþingi Íslendinga beri einnig ábyrgð á þeirri skipan. Það styrkir sjálfstæði dómstólanna sem er að minni hyggju lykilatriði ef hugmyndafræðin um þrígreiningu ríkisvaldsins í löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald á að ganga eftir, enda grunnhugsunin að baki þeirri hugmyndafræði sú að hver valdþáttur takmarki vald hins þannig að ekki safnist um of vald á eina hendi. Þetta er, virðulegi forseti, sú grunnhugsun sem býr að baki þeim hugmyndum sem hér eru lagðar fram.