131. löggjafarþing — 68. fundur,  8. feb. 2005.

Dómstólar.

12. mál
[14:47]

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Ég ætlaði að taka efnislega undir þetta frumvarp. Ég tel enga vanþörf á að fara yfir skipan hæstaréttardómara, sérstaklega í ljósi þeirra mála sem komu upp á síðasta ári og eru alveg óþolandi fyrir lýðræðið. Ég tel að það verði einnig mjög erfitt fyrir viðkomandi dómara, þá Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólaf Börk Þorvaldsson, að starfa þegar þeir hafa verið skipaðir með svo umdeildum hætti sem raun ber vitni. Ríkisstjórn Íslands eða öllu heldur viðkomandi ráðherrar hafa með svona umdeildri skipan í rauninni grafið undan lýðræðinu. Fyrir lýðræðið á Ísland tel ég því mikla þörf á því að ræða þessi mál og fara gaumgæfilega yfir skipan hæstaréttardómara.