131. löggjafarþing — 68. fundur,  8. feb. 2005.

Dómstólar.

12. mál
[14:52]

Flm. (Lúðvík Bergvinsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Eins og ég nefndi áðan í ræðu minni er þetta í þriðja sinni sem málið er flutt. Vitaskuld var fjallað um rökin í þeim umræðum og kannski er ástæðulaust að endurtaka þau hér. Ég hefði hins vegar talið æskilegt að hæstv. dómsmálaráðherra tæki þátt í umræðunni, hér er um svo stórt mál að ræða að full ástæða hefði verið til þess og full ástæða til að fá að hlýða á sjónarmið hæstv. dómsmálaráðherra í þessu efni.

Ég vildi hins vegar vekja athygli á því í þessari umræðu, einkanlega vegna orða hv. þm. Jóhanns Ársælssonar, að núverandi ríkisstjórn, þ.e. þeir flokkar sem nú sitja í ríkisstjórn, hefur í nokkur skipti orðið að sæta því að Hæstiréttur hefur kveðið upp úr um að lagasetning héðan af hinu háa Alþingi sem unnin er að undirlagi og frumkvæði ríkisstjórnarinnar hefur verið dæmd fara gegn ákvæðum stjórnarskrár. Hér er bæði um að ræða málefni er tengjast sjávarútvegi og öryrkjum. Það er einfaldlega þannig að það skiptir ríkisstjórn í hverju máli miklu hverjir sitja í réttinum. Einungis þau nöfn sem hv. þingmaður nefndi áðan vekja menn til umhugsunar um það hvort einhverjar líkur séu á því að þær niðurstöður sem þá var komist að yrðu sambærilegar nú, hvort þetta breyti áherslum Hæstaréttar, hvort ný sjónarmið séu komin þarna inn einungis vegna þess að hæstv. dómsmálaráðherra hefur tekið ákvörðun um að skipa tiltekna aðila án þess að umræða um lífsviðhorf þeirra og skoðanir fari fram á þann hátt sem hlýtur að teljast æskilegt þegar um jafnstór og -mikilvæg störf er að ræða og störf hæstaréttardómara.

Þetta vildi ég draga fram. Það er þá umhugsunarefni hvort e.t.v. megi segja sem svo að þessar skipanir þýði í reynd byltingu í viðhorfum í Hæstarétti. Það gerist án þess að almenn opinber umræða fari fram um þetta. Það er nefnilega einfaldlega þannig að hið mikla vald sem hæstv. dómsmálaráðherra er falið með núverandi skipan er að minni hyggju ekki skynsamlegt og er, eins og einhver sagði í umræðunni áðan, til þess fallið — ef það vald er misnotað — að grafa undan lýðræðinu. Það er mjög alvarlegur hlutur, virðulegi forseti.

Ég vildi aðeins draga þetta fram sökum þess að ég lít svo á að hér sé um mjög stórt mál að ræða. Ég hefði viljað fá fram viðhorf til að mynda hæstv. dómsmálaráðherra í þessari umræðu.

Að lokinni umræðunni legg ég til að málinu verði vísað til hv. allsherjarnefndar og þakka þeim sem hér hafa lagt orð í belg vegna þessa tiltekna máls.