131. löggjafarþing — 68. fundur,  8. feb. 2005.

Lögreglulög.

42. mál
[14:56]

Flm. (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögreglulögum, nr. 90/1996, með síðari breytingum. Hér er um einfalt mál að ræða sem er þó réttlætismál fyrir landsbyggðina.

Í greinargerð með frumvarpinu segir:

Í 33. gr. lögreglulaga, nr. 90/1996, er kveðið á um að allur kostnaður af starfsemi lögreglunnar greiðist úr ríkissjóði. Í 1. mgr. 34. gr. laganna er hins vegar að finna heimildarákvæði um að lögreglustjórar geti bundið skemmtanaleyfi því skilyrði að lögreglumenn verði á skemmtistað og jafnframt að leyfishafi greiði kostnað af þeirri löggæslu samkvæmt reglum sem dómsmálaráðherra setji. Aðalreglan er því sú að allur kostnaður við löggæslu á skemmtistöðum og öðrum stöðum greiðist úr ríkissjóði.

Dómsmálaráðherra skipaði starfshóp til að taka út lög og reglur um skemmtanahald á útihátíðum og skilaði hann af sér skýrslu 11. júlí 2002. Niðurstaða starfshópsins var sú að innheimta á gjöldum byggðist á mjög ótraustum lagagrunni. Þess vegna gengur þetta frumvarp út á að menn hætti þessari innheimtu. Eins og starfshópurinn kemst að byggist hann á ótraustum lagagrunni og það sem meira er, þessari heimild í lögum hefur æ ofan í æ verið beitt með mjög ósanngjörnum hætti. Hvað eftir annað hafa t.d. verið innheimt skemmtanagjöld eða lögreglukostnaður af íþróttamótum. Skemmst er að minnast íþróttamóts sem var haldið á Sauðárkróki síðasta sumar en þar var mikil rekistefna um innheimtu milljóna króna löggæslukostnaðar sem síðan var fallið frá. Það er í raun óþolandi fyrir bæði sýslumannsembætti úti á landi, sem oft eru smá, að þurfa að standa í þessum innheimtuaðgerðum og fyrir lögregluna. Síðan vilja náttúrlega íþróttamótin verjast þessu því að þau eiga fullt í fangi með að greiða ýmsan kostnað sem hlýst af mótshaldi. Ekki er greiddur t.d. sérstakur löggæslukostnaður af landsleikjum í knattspyrnu en ef Ungmennafélag Íslands heldur landsmót úti á landi heimtar ríkisvaldið milljónir króna. Þetta er mjög ósanngjarnt.

Þetta lagafrumvarp gengur út á það að fella þessa heimild sýslumanna á brott. Ég tel það vera af hinu góða. Ef sýslumannsembættin bera aukalega kostnað á auðvitað mæta honum með framlögum úr ríkissjóði en ekki með því að mismuna íþróttamótum á landinu eftir því hvar þau eru haldin.

Það virðist árleg uppákoma, að hæstv. dómsmálaráðherra lendi í þrasi út af þessum málum. Menn reyna náttúrlega að komast hjá því að greiða þennan kostnað. Árið 2003 stóð Ungmennafélag Íslands enn á ný fyrir landsmóti á Ísafirði. Þá urðu deilur og en tryggingin var lögð fram og það mál er nú rekið fyrir dómstólum. Ég tel að kröftum sýslumannsembætta og hæstv. dómsmálaráðherra væri betur varið í önnur verkefni en að sækja fjárhæðir til íþróttahreyfingarinnar.

Einnig má halda því fram að varðandi skemmtanir og útihátíðir sé mönnum mismunað. Skoðum t.d. Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum. Þegar ég skoða þessa löggjöf og það að innheimta löggæslukostnað, milljóna löggæslukostnað, af mótshöldurum þar þá virðist mér það mjög ósanngjarnt. Í Reykjavík er haldin útihátíð sem er ekki minni. Hún er frekar stærri. Ég gæti trúað því að umfang löggæslunnar og kostnaðurinn sem þar fellur til sé ekki minni en í Vestmannaeyjum. Fyrir þá hátíð er ekkert innheimt. Hér er um réttlætismál að ræða og furðulegt að sjá ekki fleiri fulltrúa landsbyggðarinnar taka undir þetta ágæta mál. Ég á von á að einhverjir taki undir á eftir vegna þess að ég tel mál að linni.

Það hæfir ekki að eltast sífellt við Ungmennafélag Íslands með reikningum hæstv. dómsmálaráðherra. Mér finnst það hæstv. ráðherra til skammar og ótrúlegt að hæstv. dómsmálaráðherra Björn Bjarnason vilji standa í þessum verkum. Ég vona að þetta mál fái framgang á hinu háa Alþingi og verði gert að lögum í vor. Ég tel að Ungmennafélag Íslands og íþróttahreyfingin um allt land muni fagna því.

Að lokinni þessari umræðu óska ég eftir því að þessu frumvarpi verði vísað til allsherjarnefndar.