131. löggjafarþing — 68. fundur,  8. feb. 2005.

Lögreglulög.

42. mál
[15:22]

Flm. (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka þessa umræðu en samt sem áður verð ég að lýsa yfir ákveðnum vonbrigðum með að sjá enga stjórnarliða taka til máls í máli sem varðar landsbyggðina og löggæsluna í landinu. Sannast sagna átti ég von á því að sjálfstæðismenn mundu fylkja hér liði og ræða þetta íþróttamál en þeir hafa nýlega sýnt mikinn íþróttaáhuga og vilja halda áfram að sýna enska boltann óþýddan og ég get í sjálfu sér tekið undir það sjónarmið. Nú erum við að ræða mótshald og að íþróttamót á landsbyggðinni verði ekki látin greiða löggæslukostnað. Ég furða mig á að hið háa Alþingi eða alþingismenn geti ekki sameinast um svo einfalt mál að vera ekki að rukka íþróttamót á landsbyggðinni.

Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson talaði um að hæstv. dómsmálaráðherra hefði hagað sér undarlega í þessu máli eða illa og ég tek undir það. Mér finnst það alveg með ólíkindum að hann skipar nefnd, sjálfur hæstv. dómsmálaráðherra, og hún kemst að því að löggæslukostnaðurinn sé innheimtur á ótraustum lagagrunni og það er sjálfur hæstv. dómsmálaráðherra sem heldur áfram að rukka á ótraustum lagagrunni. Ég tel þetta honum ekki vera til framdráttar og ég hefði talið að menn ættu að hætta þessu og það telja fleiri en stjórnarandstæðingar, t.d. sjálfir flokksmenn stjórnarflokkanna. Ég man ekki betur en ágætur sveitarstjóri á Skagaströnd, Magnús Jónsson, hafi einmitt furðað sig á því að verið væri að rukka hátíð á Skagaströnd sem var lítið annað en falleg messa, og innheimta löggæslukostnað meðan útihátíð á Akureyri, eins og hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson benti á áðan, slyppi. Það er í rauninni óréttlátt. Við eigum að sameinast um að kippa þessu úr sambandi.

Að lokum vil ég enn og aftur þakka þessa umræðu og ég trúi því að þetta réttlætismál nái fram að ganga og ef það nær ekki fram að ganga nú þá gerir það það örugglega þó síðar verði.