131. löggjafarþing — 68. fundur,  8. feb. 2005.

Endurskoðun á sölu Símans.

44. mál
[15:25]

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Þetta mál var til umfjöllunar hér í þinginu í síðustu viku og þá setti ég mig á mælendaskrá í umræðunni til þess að svara m.a. þingmönnunum Jónínu Bjartmarz og Guðmundi Hallvarðssyni sem þá tóku til máls. Nú eru þau víðs fjarri góðu gamni og sitja ekki í þingsalnum. Það er nú svolítið erfitt að halda uppi umræðu með þessum hætti þegar maður setur sig á mælendaskrá eftir ræður þingmanna og síðan er málinu frestað og svo þegar málið kemur til umræðu aftur eru þeir ekki mættir í þingsal sem tóku þátt í umræðunni hið fyrra sinni. Ég verð að viðurkenna, virðulegur forseti, að mér finnast þessi vinnubrögð á hinu háa Alþingi nokkuð sérkennileg.

Klukkan hálftvö í dag þegar þing kom saman var helst eins og maður væri mættur á þorrablót þar sem landbúnaðarráðherra væri aðalræðumaður og skemmtanahaldari og umræðuefnin voru aðallega saltkjöt og baunir. Nú virðist eins og þingmönnum hafi orðið svo þungt af þessu saltkjöts- og baunaáti að menn hafi ekki komist til þingsalar í dag. Þetta er að verða eins og í dauðs manns gröf hérna og menn eru með eintal sálarinnar í þingsalnum og enginn úr stjórnarliðinu, (Gripið fram í.) ég segi að það er eins og í dauðs manns gröf hjá stjórnarliðinu því að hér er enginn af stjórnarliðinu til þess að ræða mál sem eru stórmál og skipta verulegu fyrir hagsmuni almennings í landinu.

Áðan var verið að ræða lögreglulög, það var verið að ræða lög um dómstóla, skipan hæstaréttardómara, sem er auðvitað eitthvað sem dómsmálaráðherra og formaður allsherjarnefndar ættu að sjálfsögðu að vera viðstaddir. Nú erum við að ræða endurskoðun á sölu Símans og að sjálfsögðu ætti samgönguráðherra að vera hér og hlýða á vegna þess að þetta er mál sem er einmitt mjög á döfinni þessa dagana og er mikið til umfjöllunar í fjölmiðlum vegna þess að það eru æ fleiri að vakna upp við þann vonda draum að það er óskynsamlegt að setja Símann og hafa Símann í söluferli og gera ekki ráð fyrir því að aðskilja grunnnetið frá virðisaukandi þjónustu Símans.

En hér hefur ekki sést nokkur einasti maður í stjórnarliðinu, hvorki ráðherra né þingmaður, og mér væri næst að halda að messufall væri á Alþingi ef stjórnarandstæðingar héldu ekki uppi merkjum Alþingis og þeirrar málstofu sem hér á auðvitað að standa í þingsölum. Ég hlýt að lýsa furðu minni á því hvernig vinnubrögðin eru á hinu háa Alþingi og að maður skuli þurfa, virðulegur forseti, að standa í ræðustól og eiga orðastað við tvo þingmenn sem tóku þátt í umræðunni í síðustu viku áður en málinu var frestað og þeir eru síðan hvergi nærri. Mér er nær að halda að annar þeirra, Guðmundur Hallvarðsson, sé bara með leyfi frá þinginu þessa dagana og verði ekkert hér næsta hálfa mánuðinn þannig að það verður erfitt að eiga orðastað við þann þingmann þó að hann hafi blandað sér í umræðuna í síðustu viku.

Ég vil spyrja hæstv. forseta hvort þetta gefi ekki tilefni til þess að fresta málinu enn frekar og við tökum það bara upp þegar þessir þingmenn eru mættir hér til leiks, virðulegur forseti. Ég óska eftir því ef menn hafa ekki mikið á móti því að málinu verði einfaldlega frestað.

En það er kannski of seint fyrir mig því að ég er hér í minni annarri ræðu, ég tók þátt í umræðunni í síðustu viku. En það sem ég ætlaði að vekja athygli manna á er að við eigum að gæta almannahagsmuna og ég tel að þá og því aðeins séum við að gæta almannahagsmuna að við komum í veg fyrir að það verði margföldun í því dreifikerfi sem verið er að byggja upp í landinu til að miðla upplýsingum og efni eins og nú lítur út fyrir að verði gert.

Ég vil vekja athygli þingmanna á því að við Íslendingar erum að byggja upp vísi að öllum þeim dreifileiðum sem hægt er að bjóða í dreifikerfi fyrir sjónvarp og upplýsingar, öllum þeim dreifileiðum sem hægt er að bjóða erum við að byggja upp í þessu 300 þús. manna samfélagi. Við bjóðum upp á ADSL eða gamla koparinn. Við bjóðum upp á MMDS, það er verið að byggja það upp. Það er verið að byggja upp ljósleiðara. Það er verið að byggja upp gervihnattasendingar á landi og það er verið að byggja upp DVDT-sendingar eins og þær heita. Allt þetta er verið að byggja upp núna fyrir 300 þús. manna samfélag á vegum mismunandi aðila.

Í stað þess að þetta gerist svona væri auðvitað miklu nær að sameina alla þessa kosti í einu fyrirtæki og reyna að ná utan um þá fjárfestingu sem á sér stað í dreifikerfi landsins. Það þýðir ekki fyrir Símann að koma og segja: „Síminn á koparkerfið og það gæti náð til stærsta hluta landsmanna. Það á að duga og svo seljum við það bara í hendurnar á einhverjum einkaaðilum …“, vegna þess að þeir sem eru í samkeppni við Símann, hvort sem það eru símafyrirtæki eða þeir sem eru að dreifa margvíslegu efni og eru í samkeppni við Símann um það munu ekki treysta Símanum. Þeir treysta ekki Símanum í dag þó hann sé í ríkiseigu og þeir munu enn síður gera það þegar hann er kominn í hendurnar á einkaaðilum. Það er því tómt mál að tala um að segja bara við menn: „Við höfum koparinn. Síminn hefur yfir dreifileiðum að ráða sem menn geta nýtt sér.“ Efnisframleiðendurnir og þeir sem selja efni eða símaþjónustu munu ekki sætta sig við það. Þeir munu ekki sætta sig við að þurfa að eiga allt sitt undir fyrirtæki sem þeir eru í samkeppni við, fyrirtæki sem er í samkeppni við viðskiptavini sína.

Þess vegna er það skoðun mín að mikilvægt sé að grunnkerfið sé aðskilið frá virðisaukandi þjónustu Símans og menn freisti þess að ná utan um þessi mál og byggja upp eitt fyrirtæki sem hefur mismunandi valkosti til að bjóða upp á eftir því sem hentar á hverjum stað á landinu. Sums staðar hentar koparinn, annars staðar er það ljósleiðarinn, á enn öðrum stöðum geta það verið gervihnattasendingar, það fer eftir aðstæðum á hverjum stað. Til þess að við getum tryggt aðgang allra landsmanna að háhraðanettengingum verður að hafa heildstætt kerfi sem býður upp á mismunandi lausnir eftir hagsmunum hvers byggðarlags fyrir sig.

Þetta finnst mér að sé umræða sem við verðum að taka núna. Hún er mjög mikilvæg áður en lengra er haldið í söluferli Símans. Eins og við sjáum af umræðunni í fjölmiðlunum er engin sátt um það í samfélaginu að selja grunnnetið frá Símanum.

Ég vil að lokum minna enn einu sinni á greinargerð starfshóps um stafrænt sjónvarp á Íslandi sem var unnið fyrir samgönguráðuneytið í apríl 2003, vegna þess að nákvæmlega þar er lagt til að það sé byggt upp eitt grunnkerfi. Ég tel að við eigum að fara að þeim tillögum sem þar voru settar fram og mér finnst sérkennilegt að á sama tíma og slík stefnumörkun er í samgönguráðuneytinu sé ríkisstjórnin að vinna í allt aðra átt í gegnum söluferli Símans.