131. löggjafarþing — 68. fundur,  8. feb. 2005.

Endurskoðun á sölu Símans.

44. mál
[15:33]

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að segja að ég er hættur að undrast að sjá ekki stjórnarliða í þingsölum og vil árétta að það sé full þörf á að þeir fari að láta sjá sig, sérstaklega í þessu máli vegna þess að hv. þm. Hjálmar Árnason hafði mjög villandi ummæli í sjónvarpsþætti sem ég tel mjög alvarlegt. Sjálfur þingflokksformaður Framsóknarflokksins sem stendur fyrir sölunni hafði villandi málflutning um að enginn vissi hvað grunnnetið væri. Þetta væri eitthvað sem væri ekki hægt að skilgreina og það væri ekki hægt aðskilja eitthvað sem enginn vissi hvað væri. Ég tel fulla þörf á því að menn komi og standi fyrir máli sínu þegar menn eru að þvæla fram og aftur í fjölmiðlum með villandi ummælum um almannahagsmuni. Auðvitað skiptir þetta máli og er stjórnarflokkunum og sérstaklega Framsóknarflokknum til skammar að vera að villa um í umræðunni um almannahagsmuni.

Þess vegna tel ég það Framsóknarflokknum til mikillar skammar að geta ekki verið hér og staðið fyrir máli sínu.