131. löggjafarþing — 68. fundur,  8. feb. 2005.

Endurskoðun á sölu Símans.

44. mál
[15:43]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér mjög alvarlegt mál og það hefur verið tekið þannig til orða, m.a. af hv. þm. Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, að við Íslendingar værum að gera tilraun með nánast öll kerfi sem þekkt eru á norðurhveli jarðar við dreifingu á margmiðlunarefni og fjarskiptum. Sá sem hér stendur vakti einmitt máls á því þegar við ræddum málið síðast, áður en umræðu var frestað, að við gætum verið að stefna í þá átt að á Íslandi væru Íslendingar að gera sérstaka tilraun á því að hafa mörg fjarskiptakerfi og mundum ef óbreytt gengi eftir lenda í því að þurfa að greiða dýrustu afnotagjöld sem þekkt væru.

Mér barst í hendur í blaðið Blaðamaðurinn, félagstíðindi Blaðamannafélags Íslands, þar sem nokkur umræða er um fjölmiðla og fjarskipti. Þar er ágætis úttekt, greinargerð af málþingi sem haldið var á vegum Reykjavíkurakademíunnar um þróun og áhrif fjölmiðlasamsteypa o.s.frv. Þar flutti erindi Elva Ýr Gylfadóttir, sem er reyndar starfsmaður svokallaðrar fjölmiðlanefndar. Ég ætla að leyfa mér að lesa úr grein hennar. Tilvitnun mín hefst á stuttum kafla sem er um samkeppni. Þar segir, með leyfi forseta:

„Almennt er talið að samkeppni stuðli að verðlækkun á markaði þar sem tveir eða fleiri aðilar eru að keppa sín á milli. Þróunin á fjölmiðlamarkaðnum virðist hins vegar vera sú hér á landi að Íslendingar munu greiða mun hærra verð fyrir sjónvarpsefni en í nágrannalöndunum. Það eru ýmsar ástæður fyrir því og er ætlunin að rekja þær í stuttu máli.“

Síðan segir hún, undir fyrirsögninni „Hærra verð og fleiri stöðvar“, með leyfi forseta:

„Nú þegar eru íslenskir áhorfendur að greiða mun hærra verð fyrir minna sjónvarpsefni en íbúar nágrannaríkja okkar.

Dæmi má nefna að áskrift að á annað hundrað sjónvarpsstöðvum þar sem sýndar eru kvikmyndir, íþróttir, skemmtiefni og barnaefni og fleira kostar 41 pund hjá Sky í Bretlandi.

Canal Digital í Noregi býður nokkra tugi innlendra og erlendra sjónvarpsstöðva með fjölbreyttu úrvali fyrir 399 norskar krónur. Bæði þessi fyrirtæki bjóða áskrifendum stafræna þjónustu í gegnum gervihnött.

Á Íslandi erum við hins vegar að sjá nokkuð hærra verð á hliðrænu dreifikerfi. Stöð 2, Sýn, Bíórásin og Fjölvarpið hefur kostað 7.944 kr. miðað við netverð fyrirtækisins. Áskrifendur sem kaupa stafræna þjónustu Norðurljósa nú gætu hins vegar þurft að greiða á annan tug þúsunda króna fyrir úrvalið og þurfa fyrst um sinn að skuldbinda sig í 12 mánuði til að kaupa þjónustuna.

Síminn býður nú yfir 40 erlendar stöðvar á Breiðvarpinu fyrir 3.995 kr. Þennan mikla verðmun milli landa má að nokkru leyti skýra með smæð íslensks markaðar. Hins vegar á eftir að ráðast í fjárfestingar til að klára uppbyggingu á stafrænum dreifikerfum hér, sem nú þegar er búið að byggja upp víða erlendis.

Ljóst er að íslenskir áhorfendur munu þurfa að greiða niður þá fjárfestingu með áskriftargjöldum sínum.“

Ég ætla ekki að vitna meira í greinina að sinni en hvet fólk til að kynna sér umfjöllunina í þessu blaði. Hún er ákaflega fróðleg og dregur fram það sem hér hefur verið rætt, þ.e. hvert við stefnum með tilraunastarfsemi okkar með dreifikerfi hér á landi. Ég tek því heils hugar undir umræðuna um að vert sé að skoða hvort dreifikerfi Símans verði algjörlega skilið frá við sölu fyrirtækisins. Stjórnvöld verða að hafa áhrif á það að í framtíðinni verði boðin aðgangur að margmiðlun, háhraða margmiðlun, þar sem íslenskir neytendur fá aðgang að slíku á hliðstæðu verði og býðst í nágrannalöndunum. Ef það verður ekki, virðulegi forseti, þá velti ég fyrir mér, sem ég hef nefnt áður, hvort það gæti orðið svo að í framtíðinni sjái íslenskir neytendur sér betur borgið með því að kaupa þjónustu af erlendum stöðvum, erlendar sjónvarpsstöðvar í gegnum gervihnött, fremur en að gerast áskrifendur að þeim möguleikum sem boðið verður upp á hér á landi. Það væri slæm staða, hæstv. forseti.

Okkur er nauðsynlegt að taka þetta mál til gaumgæfilegrar endurskoðunar. Frá því að deilurnar um fjölmiðla og fleira tengt þeim málaflokki urðu á síðasta ári hefur myndin, framtíðarsýnin breyst nokkuð. Það kemur fram í áðurnefndu blaði og þeirri umræðu sem hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir vék réttilega að. Þetta mál þarf að skoða upp á nýtt og er hreint ábyrgðarleysi af forustu ríkisstjórnarinnar ef á að keyra það fram eins og það er í dag.