131. löggjafarþing — 68. fundur,  8. feb. 2005.

Endurskoðun á sölu Símans.

44. mál
[16:19]

Flm. (Jóhann Ársælsson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég trúi líka á samkeppni og það að hægt sé að hafa markað þannig að hann geti virkað sem frjálst samkeppnisumhverfi. Ég spyr hv. þingmann, af því að hann ber ábyrgð á því með ríkisstjórninni sem hann styður, hvort hann telji að það verði virkilega raunhæft samkeppnisumhverfi á þeim markaði sem hér verður til ef Síminn verður seldur með grunnnetinu hafandi í kringum 70% af öllum viðskiptum á þessum markaði og tangarhald á þeim sem þurfa að flytja efni um grunnnetið hjá honum. Finnst hv. þingmanni virkilega — ég gat ekki betur heyrt áðan í ræðu hans — að það sé allt í lagi að öll þau pínulitlu fyrirtæki sem eru á þessum markaði fyrir utan Símann séu að bisa við að búa til ný grunnnet í landinu? Ég held því ekki fram að ekki megi vera til fleiri grunnnet en það sem Síminn hefur en er það svo að hv. þingmaður telji að það verði eitthvert vit í þessari samkeppni með því fyrirkomulagi? Mér finnst t.d. síðustu fréttir af Skjá 1 þar sem forsvarsmenn þess fyrirtækis komu með grátstafinn í kverkunum til að segja frá því að nú sé búið að taka frá þeim möguleikann á því að senda út, sé vísbending um hvað getur gerst þegar menn eiga allt undir önnur fyrirtæki sem þeir eiga í samkeppni við að sækja. Ég tel þess vegna að við eigum heimtingu á því hér á landi þegar verið er að einkavæða þessa starfsemi að það verði gert með það að markmiði að til verði trúverðugt samkeppnisumhverfi þar sem þau fyrirtæki sem eru að fóta sig á markaðnum fái tækifæri til að gera það í eðlilegu umhverfi. Það hallist ekki svo á sem í stefnir.