131. löggjafarþing — 68. fundur,  8. feb. 2005.

Endurskoðun á sölu Símans.

44. mál
[16:24]

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Pétur H. Blöndal, talsmaður Sjálfstæðisflokksins við þessa umræðu, segist trúa einu og aðrir trúi einhverju öðru. Það er kannski vandinn við þessa umræðu að hún byggir af hálfu ríkisstjórnarinnar fyrst og fremst á trúarbrögðum. Stjórnarliðar hafa við umræðuna almennt neitað að horfa til reynslu annarra þjóða og einnig til reynslunnar innan lands. En það var reyndar ekki að hv. þm. Pétri H. Blöndal, fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, sem þó reyndar kemur til umræðunnar og tekur þátt í henni sem er góðra gjalda vert, sem ég vildi beina orðum mínum, heldur til samstarfsflokksins í ríkisstjórn sem hefur engan fulltrúa við þessa umræðu og þá sérstaklega formanns þess flokks, hæstv. forsætisráðherra Halldórs Ásgrímssonar. Hann er einkavæðingarráðherrann í ríkisstjórninni. Hann fer með einkavæðingarmál. Undir hann heyrir einkavæðingarnefnd.

Nú bregður svo við að þegar við ræðum þetta mikilvæga mál kýs hann að sitja þing Verslunarráðsins. Hann kýs að ræða við Verslunarráðið en hunsar þá umræðu sem fram fer á Alþingi og við þurfum að fletta upp á vef forsætisráðuneytisins til að frétta af viðhorfum hæstv. forsætisráðherra. Þar er nú komin ræða sem hann flutti í dag þegar hann ávarpaði Verslunarráðið og áhugamennina þar um markaðsvæðingu og sagði þar m.a. að einkavæðing og sala hlutabréfa í fyrirtækjum í eigu ríkisins hafi verið eitt af stærstu og helstu stefnumálum ríkisstjórnarinnar og fullyrti að mjög vel hefði tekist til. Þar segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Ég leyfi mér að fullyrða að einkavæðingarferlið, ef svo má að orði komast, hafi gengið vel undanfarin ár og til þess fallið að auka samkeppni og skilvirkni í þjóðfélaginu, neytendum til hagsbóta.“

Vorum við ekki að ræða fyrir örfáum dögum um reynsluna af markaðsvæðingu raforkukerfisins? Var ekki verið að ræða þar um stórhækkun á rafmagni? Ég man ekki betur. Er það virkilega svo að menn telji að þau skref sem stigin hafa verið á þessu sviði hafi öll verið til góðs fyrir neytendur og samfélagið? Eru menn búnir að gleyma því að sú stofnun sem við erum að ræða um hér hefur skilað tugum milljarða króna í ríkissjóð skattborgurum til hagsbóta og nú ætla menn að afsala sér þessu fyrirtæki? Hæstv. forsætisráðherra segir í ræðu sinni um söluna á Símanum, með leyfi forseta:

„Með sölu á hlut ríkisins í Símanum er jafnframt ráðist í stærstu einstöku einkavæðingu Íslandssögunnar, og því afar mikilvægt að vel takist til.“

Nú ætla ég að leyfa mér að spyrja: Hvað á hæstv. forsætisráðherra við þegar hann segir að mikilvægt sé að vel takist til? Fyrir hvern? Fyrir íslenskt samfélag? Fyrir þau fyrirtæki sem komast yfir þennan bita? Fyrir Framsóknarflokkinn? (Gripið fram í.) Nú kann einhver að segja að þetta séu ósvífnir útúrsnúningar. Svo er ekki vegna þess að þegar ríkisbankarnir voru seldir var sérstaklega búið þannig um hnútana að það gagnaðist fyrirtækjum sem ríkisstjórnin og þá sérstaklega Framsóknarflokkurinn taldi vera sér tengd. Það er staðreynd. Ég minnist þess þegar hæstv. bankamálaráðherrann, hæstv. viðskiptamálaráðherrann sagði hér einhverju sinni á þingi að til væru fyrirtæki sem væru nátengd Framsóknarflokknum, okkar fyrirtæki, minnir mig að hún hafi sagt. Það væri fróðlegt að fletta því upp í þingtíðindum. En þannig var búið um söluna á ríkisbönkunum að ríkisstjórnin gæti makkað um söluna við tiltekin fyrirtæki í stað þess að fara með þá sölu út á markað.

Ég tek undir þá gagnrýni sem hér hefur komið fram á hæstv. forsætisráðherra, einkavæðingarráðherrann í ríkisstjórninni, að vera ekki viðstaddur þessa mikilvægu umræðu. Mér finnst það mjög ámælisvert að hann skuli kjósa að sitja fund Verslunarráðsins í stað þess að ræða við Alþingi, og ætla ég þá að láta liggja milli hluta að hann hafi farið í skíðaferð í frí á meðan Alþingi sat og málefni sem honum tengjast voru til umræðu.

Hæstv. forseti. Ég minni á að fyrir liggur annað þingmál sem tengist sölunni á Símanum frá hv. þingmönnum Steingrími J. Sigfússyni og Jóni Bjarnasyni. Þar er lagt til að sölunni á Símanum verði skotið á frest. Það er sett fram í nauðvörn vegna þess að eins og allir þekkja vorum við andvíg því í upphafi að gera Símann að hlutafélagi og síðan að selja það, en í nauðvörn er sú tillaga sett fram, að sölunni verði skotið á frest til ársloka 2008.

Ég vitnaði áðan í nýútkomið Símablað þar sem rifjaðir eru upp þættir í 90 ára sögu símans, mjög fróðlegt rit sem var í umsjá Þorsteins J. Óskarssonar, þar sem hann víkur að einkavæðingunni á Símanum. Hann rifjar upp rök sem fram komu með frumvarpinu þegar það kom fram 1996.

Hér segir, með leyfi forseta:

„Augljóst er að stjórnendur sjálfstæðs íslensks fyrirtækis á sviði póst- og fjarskiptaþjónustu geta á mun auðveldari hátt brugðist við síbreytilegum aðstæðum á markaði og segja má að sjálfstætt hlutafélag á þessu sviði yrði að öllum líkindum mun arðbærara fyrirtæki, samkeppnishæfara og jafnframt áhugaverðari vinnuveitandi fyrir starfsfólk heldur en ríkisstofnun með svipuðu sniði og verið hefur.“

Við höfum rifjað það upp við umræður á Alþingi hvernig þessu þjónustufyrirtæki í eigu þjóðarinnar sem skilaði okkur lægstu símgjöldum í heiminum, hvernig það var gert að fjárfestingarfyrirtæki sem tapaði mörg hundruð milljónum króna á áhættufjárfestingum í Ameríku og víðar, sem seldi húsið við Austurvöll fyrir 820 millj. kr. og leigði síðan sjálfu sér fyrir stóran hluta af því á mánuði hverjum.