131. löggjafarþing — 68. fundur,  8. feb. 2005.

Endurskoðun á sölu Símans.

44. mál
[16:41]

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta hefur verið áhugaverð umræða sem nú er í reynd fram haldið því að hér er verið að halda áfram umræðu sem fór fram eða hófst fyrir nokkrum dögum og lýtur að þingsályktunartillögu Jóhanns Ársælssonar og fleiri um að fela ríkisstjórninni að endurskoða fyrirætlanir um sölu Símans.

Þeirri umræðu sem hefur farið fram og er fyrst og fremst ætlað að fjalla um hvort sala Símans í heilu lagi sé aðferðafræðin sem fleyti okkur í fjarskiptamálum skref áfram eða hvort sala fyrirtækis sem hefur markaðsráðandi stöðu eins og Síminn sé æskileg, hvort æskilegt sé að selja hann í heilu lagi eða undanskilja grunnnetið.

Á viðskiptaþingi Verslunarráðsins í dag fjallaði hæstv. forsætisráðherra um þetta mál og valdi það að ræða málið þar í stað þess að koma hér og ræða það á hinu háa Alþingi við hv. þingmenn, þá fullyrti hæstv. forsætisráðherra að besta leiðin til að selja Símann væri að selja hann í einu lagi. Ef farin yrði önnur leið mundi það skapa óvissu um sölu á fyrirtækinu og draga úr verðmæti Símans. Þetta fullyrti hæstv. forsætisráðherra og því hefði maður kannski talið, eftir að hafa hlýtt á og lesið þá ræðu sem hann flutti í dag, að markmið ríkisstjórnarinnar með sölu á Símanum væri fyrst og fremst að fá hátt verð fyrir Símann. Það væri kjarni málsins, að fá eins hátt verð fyrir Símann og kostur væri án þess að velta fyrir sér hvaða afleiðingar það kynni að hafa í för með sér að selja Símann í heilu lagi og í raun að afhenda einkaaðilum markaðsráðandi fyrirtæki á þann hátt sem hér er uppi.

Það sem hins vegar stingur í stúf er að annars staðar í sömu ræðu hæstv. forsætisráðherra segir hann, með leyfi forseta:

„Markmið íslenskra stjórnvalda með sölu á hlut sínum í Símanum eru skýr: að auka samkeppni á fjarskiptamarkaði enn frekar og bæta þannig hag neytenda.“

Ef ég því dreg þessar tvær fullyrðingar saman þá segir hæstv. forsætisráðherra að besta leiðin til að tryggja hag neytenda og besta leiðin til að tryggja þróun á fjarskiptamarkaði sé að selja Símann í einu lagi.

Virðulegi forseti. Ég ætla að leyfa mér að mótmæla þessum fullyrðingum og það er mat mitt að með því að gera það á þennan hátt séum við að vega að því að hér verði einhver viti borin samkeppni. Það er eins og fram hefur komið í umræðunni að þó að menn eigi vitaskuld ekki að trúa í blindni á einhverjar slíkar kenningar þá ætla ég að leyfa mér að fullyrða að þar sem samkeppni tekst — og þá er ekki verið að tala um olíumarkað eða eitthvað slíkt þar sem menn dunda sér við að semja um verð, eða aðra markaði — en þar sem raunveruleg samkeppni tekst og það tekst að halda henni við, þar sé hag neytenda best borgið.

Það er hins vegar stórmál að tryggja samkeppnina. Þess vegna vil ég leyfa mér að gjalda mikinn varhuga við því að selja jafnöflugt markaðsráðandi fyrirtæki og Síminn er í einu lagi og grunnnetið með.

Það er verðugt umhugsunarefni að Síminn er í dag í krafti grunnnets síns og einkanlega kopartenginganna, hvað svo sem framtíðin kann að bera í skauti sér, með viðskiptasamband við hvert einasta heimili í landinu. Það felast gríðarleg verðmæti í að vera tengd inn á hvert einasta heimili í landinu, og að ætla að láta jafnstórt og öflugt fyrirtæki fara í einu lagi verandi með þessa aðstöðu og ætla sér að treysta á að ein lítil stofnun geti tryggt að samkeppni sé á þessum vettvangi finnst mér eins og að menn séu að fara af stað með mikla trú en lítið í farteskinu.

Ég vildi vekja sérstaklega athygli á þessu, virðulegi forseti. Símafyrirtækin, þau fyrirtæki sem eru í samkeppni við Símann, hafa öll goldið varhuga við því að gera þetta með þessum hætti vegna þess að reynslan hefur kennt þeim, þrátt fyrir góðan og hástemmdan vilja löggjafans að tryggja öllum aðkomu að grunnnetinu, að það hefur ekki tekist með þeim hætti að ásættanlegt er. Þess vegna hafa þau fyrirtæki sent frá sér yfirlýsingu þess efnis að grunnnetið verði aðskilið.

Hins vegar finnst mér ekkert mæla því í mót að grunnnetið sé svo selt sérstaklega. Það er alveg ástæðulaust fyrir ríkið að vera í samkeppni við önnur grunnnet, en það er mat mitt að til þess að tryggja samkeppni sem er mjög erfitt eins og menn þekkja því það er miklu auðveldara fyrir forstjóra fyrirtækja, fyrir stjórnendur að semja um verð þegar fá fyrirtæki eru á markaðnum eins og reynslan ber með sér, þannig að ef við ætlum að búa til raunverulega samkeppni sem tryggir hag neytenda, samkeppni sem knýr menn áfram til að þróa og bæta rekstur sinn þarf að vera raunveruleg samkeppni til staðar og að minni hyggju næst hún ekki fram með þessari aðferðafræði. Því hefði ég viljað sjá önnur sjónarmið uppi en fram komu í ræðu hæstv. forsætisráðherra í dag.

Ég sagði fyrr í umræðunni að ég saknaði þess mjög að hæstv. ráðherrar tækju ekki þátt í jafnmikilvægri umræðu og hér fer fram, því það er mat mitt að salan muni skipta miklu máli. Hún muni skipta miklu máli um þróun atvinnugreinar sem er í örum vexti og ég óttast að þróunin verði ekki jafnhröð og öflug ef sú leið verður farin sem hér er ætlað að fara. Það er líka sannfæring mín að það umhverfi og þau viðhorf sem voru uppi fyrir tæpum fimm árum þegar samþykkt var að selja hlutabréf í Símanum eigi ekki endilega við í dag. Þess vegna hefði verið mikilvægt að hér færu fram öflug skoðanaskipti milli ráðherra og þingmanna um það umhverfi sem nú er uppi í stað þess að stjórnarandstaðan, að hv. þingmanni Pétri H. Blöndal undanskildum, hefur að mestu haldið uppi einræðu um sjónarmið þar sem verið er að reyna að tryggja sölu sem tryggir samkeppni, en í sjálfu sér, virðulegi forseti, kemur það ekki á óvart að Sjálfstæðisflokkurinn skuli ekki vilja taka þátt í þeirri umræðu af meiri krafti en verið hefur.