131. löggjafarþing — 68. fundur,  8. feb. 2005.

Stjórn fiskveiða.

362. mál
[16:50]

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Hér er tekið til umræðu frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða. Það er orðið árvisst að komið sé með frumvörp til að stagla í götin, að stoppa í götin í götóttu og óréttlátu fiskveiðistjórnarkerfi.

Í athugasemdum við lagafrumvarpið stendur, með leyfi forseta:

„Með frumvarpi þessu er stefnt að því að gera nokkrar lagfæringar á lagatexta sem einkum má rekja til afnáms sóknardagakerfis. Lagfærðar eru nokkrar tilvísanir til laga sem ekki eru lengur í gildi. Þá er lagt til að heimild til að ákveða að hluti afla skuli ekki reiknast til aflamarks verði gerð varanleg og að tímabundin heimild til ráðherra um sérstaka ráðstöfun þorskeldiskvóta gildi til loka fiskveiðiársins 2009/2010.“

Meginefni lagafrumvarpsins er því að lagfæra það sem út af stendur eftir að sóknardagakerfið var afnumið illu heilli á síðasta þingi. Það mun áfram þurfa að stoppa í göt og hrækja í sárin sem eru vegna fiskveiðistjórnarkerfisins því það er í heild sinni óréttlátt eins og landsmenn upplifa nú dag hvern vítt og breitt um landið. Nýjasta dæmið er frá Stöðvarfirði þar sem var áður og er enn blómlegur útgerðarbær, íbúarnir áttu veiðitækin, skipin, fiskverkunina og þarna var öflugt sjávarútvegslíf. En með breytingunum á kerfinu var auðlindin í sjónum gerð að markaðsvöru og hún gengur síðan kaupum og sölum. Byggðirnar sem höfðu sett allt sitt traust á að eiga forgang, eiga rétt til þessarar auðlindar standa réttlausar eftir og það óöryggi sem íbúarnir búa við er ekki lýsanlegt. Þetta er það vandamál sem við höfum mátt horfa á vítt og breitt um landið, þetta óréttlæti að íbúarnir í sjávarþorpunum, íbúarnir í sjávarbyggðunum sem hafa skapað auðlegðina sem í fiskinum er eru réttlaus þegar kemur að því að mega eiga forgangsrétt til að nýta auðlindina.

Síðasta skrefið sem stigið var í fyrra var einmitt að afnema sóknardagakerfið, kerfi sem gerði ákveðnum hópi flotans kleift að sækja sjóinn án þess að vera bundinn á klafa kvótakerfisins í formi framseljanlegs aflamarks.

Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum lagt fram ítarlega stefnu í sjávarútvegsmálum sem tekur tillit til allra þessara þátta. Hún tekur tillit til þess að vernda og ganga vel um auðlindir sjávarins og að þær séu nýttar með sjálfbærum hætti, það sé númer eitt. Númer tvö sé að byggðirnar eigi ákveðinn rétt til forgangsréttar í að nýta auðlindirnar á grunnsævinu og í þriðja lagi hafi útgerðirnar rétt til ákveðins hluta af aflaheimildunum og ákveðinn hluti af þeim heimildum geti verið á markaði þannig að allir sem að þessu koma geti átt sinn afmarkaða rétt, en jafnframt sé stuðst við ýmsa kosti í markaðskerfinu sem er veitt hæfilegt svigrúm innan þess kerfis sem við leggjum til. Með því mundi skapast öryggi og festa í byggðum landsins og einnig fyrir útgerðina og vinnsluna en ekki hvað síst fyrir umgengnina við lífríki sjávarins.

Frumvarpið, eins og ég hef áður getið um, miðar fyrst og fremst að því að fella brott og breyta lögum með tilliti til þess að sóknardagakerfið hefur verið lagt niður. Ég vil þess vegna spyrja hæstv. ráðherra að því hvort til sé nú þegar yfirlit um hver áhrifin eru af því að sóknardagakerfið hafi verið fellt niður, hvernig aflamarkshlutdeildin eða veiðiheimildirnar á skipum hafi breyst síðan þá. Hvernig hefur sá floti sem var áður innan sóknardagakerfisins breyst? Hvað hefur verið selt af þeim kvóta sem var til þegar sóknardögunum var breytt í framseljanlegar aflaheimildir? Hvað hafa bátarnir selt mikið frá sér, hvernig er fiskveiðiflotinn samsettur nú? Ég tel mjög mikilvægt að við getum fylgst náið með hverjar breytingar verða á samsetningu flotans okkar og hvernig fiskveiðiheimildirnar færast til innan hans. Líka verður fylgst með því hvaða áhrif þetta hefur á atvinnulíf, á löndun á fiski til einstakra hafna sem byggðu einmitt mikið á því að taka á móti afla frá sóknardagabátum og hvaða breytingar verða á atvinnulífsmunstrinu í kjölfar þeirra breytinga. Mér finnst eðlilegt að sjávarútvegsráðuneytið fylgist mjög náið með því og geti gert þinginu grein fyrir því hvaða afleiðingar lagabreytingar sem slíkar hafa á þessi atriði.

Af því að verið er að fjalla um meðaflann og festa lagaheimildir sem lúta að meðferð á meðafla í sessi, sem mér finnst hið besta mál, er líka ástæða til þess að um leið sé hugað vandlega að því hvernig til hefur tekist. Hv. þingmaður Guðjón A. Kristjánsson spurði hvort 5% markið hafi reynst nóg, hvort hæstv. ráðherra hefði vitneskju um hvort bátar hefðu lent í vandræðum vegna þess að lágmarkið væri svo lágt og hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson minntist einmitt á hvort ekki mætti hækka markið upp í 7% eða slíkt. Þegar 5% markið var lagt á fyrir nokkrum árum var um leið talað um að fylgjast skyldi mjög náið með hvort þetta væri hæfilegt mark eða ekki. Þetta var sett í gang með þessum hætti en síðan er mjög mikilvægt að kanna hvernig þetta passar þannig að skipum finnist þau ekki vera knúin til þess að taka jafnvel ekki afla að landi þegar yfir 5% markið er komið. Það er enginn slíkur hvati til og því spurning hvort þetta virki eins og til var ætlast eða hvort við þurfum ekki að endurskoða einhverja þætti þess.

Í umræðunni fyrr í dag var líka minnst á meðafla við veiðar í flottroll. Hæstv. ráðherra sagði að verið væri að kanna hvernig koma mætti á reglum til að hann yrði tölulega metinn og skráður og að hægt yrði taka hann inn í kerfið með hliðstæðum hætti og meðafla í öðrum veiðum. Mjög mikilvægt er að undirstrika að það verður að koma á jafnrétti í meðferð á meðafla. Við höfum lent í því á undanförnum árum að það hafa verið harðar deilur um það hvort meðafli komi við veiðar á uppsjávarfiski eða ekki og hversu mikill. Menn hafa nánast farið í kappræður út af þessu eins og við þekkjum. Mig minnir að í hittiðfyrra hafi verið sagt í sjávarútvegsnefnd eiginlega nákvæmlega það sama og hæstv. ráðherra sagði áðan, þ.e. að verið væri að vinna að tillögum um hvernig mætti meta eða mæla meðafla við uppsjávarveiðar. Tilfinning mín er því sú vegna orðalags hæstv. ráðherra að við séum á nákvæmlega sama stað í umræðunni og við vorum fyrir tveimur eða þremur árum síðan þegar tekin var hörð umræða um þetta á þinginu og í sjávarútvegsnefnd. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra: Getur hann ekki dagsett hvenær komið verði á reglum sem taka á meðafla í veiðum á uppsjávarfiski? Það er alveg hróplegt óréttlæti, fyrir utan svo það að það er skaðlegt allri veiðistjórn og skaðlegt lífríkinu, að svo stór floti sem uppsjávarveiðiflotinn, og svo mikil sem veiði hans er og svo mikil sem yfirferð hans er á miðum landsins, skuli undanþeginn því að standa skil á meðafla sem ekki tilheyrir því sem veiða á. Ég tel þetta mikið réttlætismál sem eigi að vera hafið upp yfir að stjórnast einungis af kappræðum. Ég leyfi mér að ítreka spurningu mína til hæstv. ráðherra: Getur hann ekki dagsett hvenær við getum sett þó ekki væri nema eitthvað í gang sem tekur á meðafla í veiðum á uppsjávarfiski í flottroll?

Í sjálfu sér er ekki miklu meira við þetta að bæta. Það er svo sem hægt að tala um sjávarútvegsmálin vítt og breitt. Ég vil taka undir orð hv. þingmanns Guðjóns Arnars Kristjánssonar sem minntist á loðnuveiðarnar. Hann talaði um að loðnuveiðar í bræðslu í því magni sem þær nú eru stundaðar geti varla verið þjóðhagslega hagkvæmar þegar litið er til lífríkisins í heild og um þá viðbót sem loðnuflotanum var gefin nú til að veiða sem hefði meiri keim af því að verið væri að rétta af erfitt gengi gagnvart flotanum, þ.e. með því að auka veiðiheimildirnar. En ég leyfi mér að spyrja hæstv. ráðherra hvort ekki standi til að beita frekari aðgerðum eða þrýstingi til að loðnuveiðar verði fyrst og fremst stundaðar til að ná hámarksgæðum afurðanna með að frysta loðnuna og hvort ekki verði að fara að huga að því að stilla loðnuveiðum meira í hóf — þetta er undirstöðufæða fisksins okkar — og hvort ekki geti verið hætta á því að við göngum allt of langt í loðnuveiðunum eins og þær nú eru stundaðar og það komi allharkalega niður á öðrum fisktegundum sem hafa hana sem fæðu. Loðnan er mikilvægur liður í fæðukeðju sjávardýra. Ég vil nota tækifærið og nefna það hér að ég tel hæpið að við séum á réttri leið í loðnuveiðunum þegar litið er á hagsmuni lífríkisins í heild.

Herra forseti. Ég vildi koma þessum atriðum á framfæri og mun í lokin ítreka það sem mér finnst að eigi að vera, þ.e. að fullkomlegt jafnrétti sé hvað varðar skráningu og meðferð á meðafla óháð veiðarfærum og að mjög brýnt sé að á því sé tekið og svo ítreka ég spurningu mína um hvenær við verðum komin með einhver tæki í gang til að taka á því máli.