131. löggjafarþing — 68. fundur,  8. feb. 2005.

Stjórn fiskveiða.

362. mál
[17:28]

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Það kom fram í ræðu hæstv. sjávarútvegsráðherra að honum þætti miður að mönnum væri nuddað upp úr því að þeir hefðu svikið og gengið á bak orða sinna. En nú minnist ég þess að ákveðnir þingmenn sem ég minntist á fyrr í ræðu minni, hv. þingmenn Einar Oddur Kristjánsson, Einar K. Guðfinnsson og Kristinn H. Gunnarsson, gengu á fund undir þeim borða: Orð skulu standa. Á þeim fundi gáfu þeir í skyn eða sögðu berum orðum að þeir ætluðu að tryggja viðgang sóknardagakerfisins. En þegar komið var hingað við Austurvöll sviku þeir það. Ef ég vitna í einn hv. þingmann, Einar Odd Kristjánsson, á þessum fundi:

„Ég hef margsinnis lýst því yfir að það sé lífsnauðsynlegt fyrir dagabátana að hafa þetta gólf, margsinnis lýst því yfir að ég er tilbúinn að styðja þessa 23 daga ...“

Svona er þetta bara, því miður. Það er sorglegt að menn skuli gefa yfirlýsingar fyrir kosningar, eins og hv. þm. Hjálmar Árnason um að hann ætli að setja gólf í dagabátakerfið í kvótakerfinu og segir að það sé stefna Framsóknarflokksins, en síðan þegar menn eru kosnir á þing er snúið við blaðinu. Auðvitað er það alvarlegt.

Það er annað sem ég tel einnig mjög alvarlegt og það er að hæstv. sjávarútvegsráðherra virðist ekki gera sér grein fyrir því að stofnarnir eru einnig minni eftir að kvótakerfið var sett á, ekki einungis aflinn heldur einnig stofnarnir. Það getur hann kynnt sér ef hann skoðar línurit á heimasíðu minni, sigurjon.is, sem unnið er upp úr gögnum frá Hafrannsóknastofnun og þar kemur berlega í ljós (Forseti hringir.) að stofnarnir eru miklu, miklu minni.