131. löggjafarþing — 68. fundur,  8. feb. 2005.

Stjórn fiskveiða.

362. mál
[17:31]

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Ég bíð spenntur eftir því að það renni upp fyrir hæstv. ráðherra að ég hef rétt fyrir mér. Hvaða afleiðingar mun það hafa? Munu menn þá halda áfram að berja hausnum við steininn og halda í vita vonlaust kerfi sem engu hefur skilað?

Þetta ágæta línurit á heimasíðu minni, sigurjon.is, er unnið upp úr gögnum Hafrannsóknastofnunar, upp úr vísindagögnum og staðreyndirnar tala sínu máli. Ég tel að það sé farið að renna upp fyrir æ fleirum að kerfið skilar ekki nokkrum sköpuðum hlut nema ef til vill fyrir banka landsins. Ekki hefur það skilað sjávarútveginum miklu. Skipakostur landsins er farinn að eldast. Öll hagræðingin, ekki rennur hún í vasa sjómanna. Tilhneigingin virðist fremur að skerða kjör sjómanna og síðan skilar kerfið okkur byggðaröskun í þokkabót.

Ég vona einlæglega að upp renni ljós fyrir hæstv. ráðherra og hann átti sig á því að við höfum verið á rangri braut.