131. löggjafarþing — 68. fundur,  8. feb. 2005.

Stjórn fiskveiða.

362. mál
[17:32]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þar sem um er að ræða ákveðnar lagfæringar á lögunum, hálfgerða lagahreinsun ef svo mætti segja, þá vil ég nefna eitt í andsvari mínu við hæstv. ráðherra. Í lögunum, undir bráðabirgðaákvæðakaflanum, en eins og allir vita eru 35 greinar undir bráðabirgðaákvæðum, er mörgum sinnum talið upp ákvæði um að skoða núverandi fiskveiðistjórnarkerfi út frá ýmsum forsendum.

Í bráðabirgðaákvæði VII segir: „Sjávarútvegsráðherra skal láta fara fram athugun á mismunandi kostum við stjórn fiskveiða ...“

Í bráðabirgðaákvæði XIX segir: „Sjávarútvegsráðherra skal fyrir lok fiskveiðiársins 1998/1999 láta kanna hvaða áhrif lögin hafi haft á íslenskan sjávarútveg, sérstaklega stöðu og möguleika einstaklingsútgerðarinnar.“

Í bráðabirgðaákvæði XXII segir: „Sjávarútvegsráðherra skal að liðnum fimm árum frá gildistöku laga þessara leggja fyrir Alþingi skýrslu þar sem gerð er grein fyrir áhrifum þeirra á íslenskan sjávarútveg.“

Það kann að vera, hæstv. forseti, að ákvæðin séu fleiri en þar sem við höfum svo mörg ákvæði í lögunum um að meta stöðuna þá vildi ég beina ákveðinni spurningu til hæstv. ráðherra. Honum hefur tekist með atbeina flokks síns og samstarfsflokksins að setja allar fisktegundir inn í kvótakerfi og hefur látið hafa eftir sér að nú stefndi í sátt í sjávarútvegi. Er þá ekki komin ástæða til að uppfylla þessi bráðabirgðaákvæði laganna um að taka saman skýrslu þar sem ástandið yrði metið, áhrifin á byggðirnar, flotann o.s.frv.?