131. löggjafarþing — 68. fundur,  8. feb. 2005.

Stjórn fiskveiða.

362. mál
[18:07]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel einmitt að það sé full ástæða til kortleggja þetta vel og fylgjast mjög grannt með þeim afla sem er að koma að landi með þessum hætti, hvaða skip eru á ferðinni og hversu margar útgerðir uppfylla þessa prósentu því hér eru svo sannarlega á ferðinni mikil verðmæti og mikill virðisauki fyrir þjóðfélagið og peningar sem ættu að öllu jöfnu og vonandi að gagnast okkur mjög vel, m.a. til rannsókna, og ekki veitir nú af fé til hafrannsókna. Það vitum við öll og sjávarútvegsráðherra að sjálfsögðu líka.

Það væri kannski ástæða til þess að endurtaka leikinn frá því í fyrra og senda hinum sömu fyrirspurn. Það var að vísu viðamikil fyrirspurn og að því er virtist mikil gögn sem lágu þar á bak við en kannski er einfaldast að gera þetta í tölvum og keyra í gegn prógramm sem skilar sömu niðurstöðum, en þá fyrir þann tíma sem liðinn er frá því að fyrirspurninni var skilað inn í fyrra. Þar voru athyglisverðir hlutir á ferðinni, við sáum t.d. að kvótalítil skip voru mjög dugleg við að landa svona afla en hins vegar brá svo undarlega við, og ég hef ekki fengið neina skýringu á því, að skip í eigu kvótasterkra útgerða voru ekki að landa neinu í hinn svokallaða hafrósjóð. Það fannst mér sæta mikilli furðu.

Það kann vel að vera að hæstv. sjávarútvegsráðherra hafi einmitt látið kanna það hver ástæðan sé fyrir þessu og hann geti kannski gefið okkur svör við þeirri spurningu hér og nú hvernig standi á því að það eru bara kvótalitlu skipin sem landa hafrófiski en ekki stóru útgerðirnar. Þær hljóta að vera að veiða gallaðan fisk, skemmdan fisk, fisk sem hefur verið í netum og jafnvel skemmst í trolli og annað þess háttar og sjá sér hag í því að landa í hinn svokallaða hafrósjóð þó ekki sé nema endrum og eins.