131. löggjafarþing — 68. fundur,  8. feb. 2005.

Þróunarsjóður sjávarútvegsins.

387. mál
[18:38]

sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Það eru athyglisverð sjónarmið sem fram hafa komið hjá tveimur síðustu ræðumönnum, m.a. að takmarka ekki ráðstöfun þeirra fjármuna sem hér um ræðir við hafrannsóknir hjá Hafrannsóknastofnun. Ég er þeirrar skoðunar að Hafrannsóknastofnuninni sem slíkri veiti ekki af þeirri viðbót sem þarna um ræðir í rannsóknum sínum og við eigum að halda okkur við þá ákvörðun sem Alþingi tók 1997 að láta þá fjármuni renna til Hafrannsóknastofnunar. Ég tel hins vegar skynsamlegt að þetta sé sett í Verkefnissjóðinn og renni í gegnum hann til þess að ráðstöfun þeirra fjármuna sé í samhengi við aðra fjármuni sem ráðstafað er í þessum tilgangi og geti kannski á þann hátt tengst ráðstöfun fjármuna til annarra aðila sem rannsóknir stunda á þessu sviði.

Varðandi það að varhugavert sé að einn maður fari með ráðstöfun svo mikilla fjármuna held ég að það teljist ekki sérstaklega miklir fjármunir í því samhengi sem ríkisfjármálin eru og ráðstöfun fjármuna sem um er að ræða hjá ráðuneytunum. Ég hef því ekki sérstakar áhyggjur af þeim þætti.

Hvað varðar fiskveiðiminjarnar er þar sannarlega um verðugt verkefni að ræða, það er verðugt verkefni að varðveita sjávarminjar og stuðla að því að við séum sem best upplýst um sögu sjávarútvegs okkar og hvernig á málum hefur verið haldið í gegnum aldirnar. Hins vegar er það í mínum huga allt annað verkefni. Þó að við viljum ráðstafa fjármunum til að varðveita fiskveiðiminjar eigum við ekki að láta það gerast á þann hátt að við drögum úr þeim fjármunum sem við höfum þegar ákveðið að ráðstafa til hafrannsókna. Ég held að það sé í fullkomnu ósamræmi við þá umræðu sem hér hefur farið fram og þeir þingmenn sem um það hafa talað að við þyrftum að efla hafrannsóknir okkar, efla Hafrannsóknastofnunina, ef þeir ætla að fara að rýra fjármuni stofnunarinnar til hafrannsókna með því að taka af fjármununum til þess að varðveita fiskveiðiminjar hefur einfaldlega ekki verið að marka það sem þeir sögðu um hug sinn til hafrannsókna.

Við skulum leita annarra fjármuna til þess að varðveita fiskveiði- og sjávarútvegsminjarnar, og eins og fram kom hjá hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni, að eftir umræður við forsætisráðherra var málinu vísað til menntamálaráðherra. Þar er varðveisla fornminja og varðveisla menningarminja, það er hlutverk þess ráðuneytis og þeirra stofnana sem þar eru. Hins vegar er hlutverk Hafrannsóknastofnunar og hlutverk sjávarútvegsráðuneytisins að standa fyrir hafrannsóknunum og samkvæmt þeim lögum sem við búum við í dag er fjármununum ætlað að renna til þeirra. Ég tel að við eigum að láta þá fjármuni sem hér um ræðir renna heila og óskipta til hafrannsókna og tel að ekki veiti af.