131. löggjafarþing — 68. fundur,  8. feb. 2005.

Þróunarsjóður sjávarútvegsins.

387. mál
[18:42]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel mjög varhugavert að eyrnamerkja peningana Hafrannsóknastofnun einvörðungu. Það er ekki verið að tala um að rýra fjármuni til Hafrannsóknastofnunar, umræðan snýst jú um að veita alla vega verulegum hluta af peningunum til Hafrannsóknastofnunar. Við vitum að þeir peningar sem Verkefnasjóður sjávarútvegsins hefur haft til umráða hafa að mjög stórum hluta farið einmitt beint til Hafrannsóknastofnunar, verið viðbót við þá peninga sem stofnunin hefur annars fengið á fjárlögum.

Hér er um verulegar upphæðir að ræða. Fram kom í svari frá hæstv. sjávarútvegsráðherra við fyrirspurn sem ég sendi honum í vetur að í Verkefnissjóð sjávarútvegsins hafi runnið frá áramótum 2003–2004 þangað til í haust 125 millj. og af þeim hafi verið úthlutað rúmum 122 millj. í mörg mismunandi verkefni. Verkefni sem eru góðra gjalda verð, ég ætla alls ekki að draga úr því, en þetta eru verulegir fjármunir sem einum manni er falið að deila út og veitir honum mikil völd, ef svo má segja, og ég geld varhuga við því að þetta verði gert með þessum hætti.

Varðandi Þróunarsjóðinn og að það sé óeðlilegt að peningum úr Þróunarsjóði sé varið til þess að varðveita minjar í tengslum við sjávarútveginn finnst mér það ekki óeðlilegt, vegna þess að sjóðurinn var notaður til að veita styrki til úreldingar fiskiskipa og úreldingar á fasteignum og öðru, framleiðslutækjum í tengslum við sjávarútveg. Það má eiginlega segja að sjóðurinn hafi á vissan hátt verið ábyrgur fyrir því að allt of margir bátar sem við áttum áður fyrr voru sendir beint á bálið og hús voru rifin og annað þar fram eftir götunum. Mikið af minjum fór til spillis.