131. löggjafarþing — 68. fundur,  8. feb. 2005.

Þróunarsjóður sjávarútvegsins.

387. mál
[18:49]

sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að agnúast út í að það þurfi fjármuni til að varðveita sjávarminjar, en ítreka það sem ég sagði áðan um þá ríku hagsmuni sem fylgja því að leggja fé í hafrannsóknir og hvað það skiptir miklu máli fyrir þjóðfélagið. Við verðum líka að gera okkur grein fyrir því að þingsályktun upphefur ekki lög frá Alþingi. Staðan er sú í dag að þessir fjármunir eiga samkvæmt lögunum að renna til hafrannsókna og okkur veitir ekkert af þeim. Ég hef ekki orðið var við annað á hv. Alþingi á undanförnum missirum en að menn vilji efla hafrannsóknir. Ef menn ætla að standa við þau orð sem þar hafa fallið gera menn það ekki með því að rýra þá fjármuni sem lög standa til að renni til hafrannsókna.