131. löggjafarþing — 69. fundur,  9. feb. 2005.

Íslenskir fiskkaupendur.

487. mál
[12:15]

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Frú forseti. Á nýliðnu ári voru tæplega 50 þús. tonn af óunnum fiskafla send á erlendan markað og seld fyrir um 8,2 milljarða kr. Verðmætið jókst um 46% frá árinu 2003 og jókst útfluttur afli um 43%. Sem dæmi um útflutt magn voru rúm 6 þús. tonn af ýsu flutt út óunnin fyrir um 2,4 milljarða kr. Mestur útflutningur er frá Vestmannaeyjum, um 31% af heildarmagninu.

Virðulegi forseti. Til samanburðar fyrir árið í fyrra voru seld tæp 100 þús. tonn fyrir um 11,3 milljarða kr. á öllum fiskmörkuðum á Íslandi. Fyrirspurn mín til hæstv. sjávarútvegsráðherra vegna þessa er svohljóðandi:

Hefur ráðherra í hyggju að leggja til breytingar á lögum og reglum sem tryggja að íslenskir fiskkaupendur geti boðið í fisk sem nú er fluttur óunninn úr landi á markað erlendis?

Með breytingu á reglugerð nr. 105 frá 14. febrúar 2003 var stigið lítið jákvætt skref, nánast hænuskref, í þessa átt. Þá var útflytjendum á óunnum afla gert skylt að tilkynna með minnst 24 klukkutíma fyrirvara til Fiskistofu þá ætlun sína að flytja út óunninn afla. Það hænuskref hefur hins vegar engu skilað og er nánast gagnslaust. Nokkrir fiskverkendur hafa reynt þetta og oftast ekki fengið svar. Með hinu fullkomna uppboðskerfi Íslandsmarkaðar geta erlendir aðilar boðið í fiskinn í samkeppni við íslensk fyrirtæki.

Á það mætti reyna hver væri hæstbjóðandi áður en fiskurinn yrði fluttur út. Kerfið mundi því bæði styrkja innlenda fiskverkendur í hráefnisöflun og íslenska fiskmarkaði auk þess að auka atvinnu hér á landi. Þetta er að mínu mati sanngjörn leið, virðulegi forseti, til verðmyndunar sem eykur um leið íslensk umsvif og jafnframt stöðugleika í vinnslu hér heima, styrkir markaðsstöðu okkar fyrir ferskan fisk, útilokar ekki erlenda kaupendur frá óunnum afla og skerðir ekki heldur tekjur sjómanna. Við mundum með þessu búa til alþjóðlega samkeppni með íslenskan fisk. Þetta er því mikið sanngirnismál.

Frú forseti. Ég hef gert grein fyrir ástæðunni fyrir því að ég legg þessa fyrirspurn fyrir hæstv. sjávarútvegsráðherra, þ.e. að 50 þús. tonn voru flutt óunnin úr landi á síðasta ári og aðeins helmingi meira fer í gegnum hina íslensku fiskmarkaði.