131. löggjafarþing — 69. fundur,  9. feb. 2005.

Íslenskir fiskkaupendur.

487. mál
[12:18]

sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Því er til að svara að ég hef engar fyrirætlanir um að breyta fyrirkomulaginu eins og það er í dag. Ég tel að útflutningsálagið sem í gildi er og þeir möguleikar sem fiskvinnslan hefur til að nálgast upplýsingar um fyrirætlaðan útflutning eigi að nægja í opnu markaðshagkerfi til þess að þeir sem telja sig geta boðið betur í fiskinn en þeir sem selja hann eiga von á að fá á erlendum mörkuðum hafi möguleika til að kaupa fiskinn.

Það er kannski rétt að nefna í þessu samhengi, þar sem hv. þingmaður fór með tölur um útflutning á óunnum fiski á síðasta ári, að umtalsverð aukning varð á þeim útflutningi. Ef ég man tölurnar rétt fór hann úr tæplega 30 þús. tonnum í 50 þús. tonn. Þar munar mestu um aukinn útflutning á ýsu en ástæða þess er að sjálfsögðu sú að ýsukvóti hefur vaxið mjög að undanförnu og veiðin þar með. Þar með hefur þurft að leita nýrra leiða til markaðssetningar á þeim afurðum. Það hefur reyndar verið áhyggjuefni hve mikið verðið á ýsu hefur lækkað vegna hins aukna framboðs.

Ef við síðan skoðum þetta í samhengi við niðurstöður frá svokallaðri fiskmarkaðsnefnd frá því snemma árs 2003 þá sést greinilega, af þeim niðurstöðum, að ástæða þess að aðilar flytja út fisk óunninn er sú að þeir fá hærra verð fyrir hann á erlendum mörkuðum en þeir hefðu líkast til fengið á innlendum markaði. Ég held að rétt sé að álykta sem svo að innlendir fiskseljendur flytji fisk á erlendan markað óunninn þegar þeir telja líkur á að fá hærra verð fyrir hann þar en þeir fengju á innlendum mörkuðum eða þegar þeir þurfa að leita nýrra markaða vegna aukins framboðs, eins og raunin virðist hafa verið með ýsuna. Út frá þeim forsendum hef ég ekki neinar fyrirætlanir um að breyta fyrirkomulaginu.