131. löggjafarþing — 69. fundur,  9. feb. 2005.

Íslenskir fiskkaupendur.

487. mál
[12:24]

Gunnar Örlygsson (Fl):

Virðulegur forseti. Það sem kemur kannski mest á óvart í þessari umræðu er að svo virðist sem hv. þingmenn Vinstri grænna sýni markaðslögmálinu meiri skilning en hæstv. ráðherra sem kemur úr röðum sjálfstæðismanna. Ég minnist þess úr síðustu kosningabaráttu að hæstv. ráðherra Árni Mathiesen greindi frá því að hann hefði það markmið að tvöfalda verðmæti sjávarfangs á Íslandi á 10 árum. 50 þús. tonn af óunnu hráefni sem fer á markað erlendis mundu skila 4–7 milljörðum kr. aukalega í kassann ef það væri unnið heima.

Það hefur oft komið fram í umræðunni, eins og kom fram í máli hv. þingmanns Jóns Gunnarssonar, að vigtarfyrirkomulag erlendis á óunnu hráefni er undir kastljósi þeirra sem áhuga hafa á sjávarútvegi. Svo virðist sem það sé með öðru sniði en hér heima. Vert væri að fá að vita frá hæstv. ráðherra hvort hann hyggist kanna það mál sérstaklega til að þagga niður þær raddir sem hafa verið nokkuð háværar um þau mál að undanförnu.