131. löggjafarþing — 69. fundur,  9. feb. 2005.

Íslenskir fiskkaupendur.

487. mál
[12:26]

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Hráefnisskorturinn kann að vera helsta vandamál íslenskrar fiskvinnslu. Það kom mjög skýrt fram í nefnd sem ég stýrði um málefni fiskvinnslunnar fyrir fáeinum árum. Þess vegna er mjög eðlilegt að fiskverkendur horfi til þessara 50 þús. tonna sem nú fara í sölu beint til útlanda án þess að menn hafi möguleika á að bjóða í þann fisk.

Hinu verða menn þó að gera sér grein fyrir, að ef þetta er selt á almennum markaði þar sem bæði útlendingar og Íslendingar geta keppt þá er ekki þar með sagt að sá afli fari allur til vinnslu hérlendis. Hann getur auðvitað lent í höndunum á erlendum fiskverkendum. Það sem mér finnst skipta máli í þessu sambandi er að með því að fiskurinn fari um íslenska fiskmarkaði væri tryggt ákveðið jafnræði íslenskra og erlendra fiskverkenda en jafnframt tryggt að ráðstöfunarrétturinn væri útgerðarmannsins. Þannig á það skilyrðislaust að vera. Það á auðvitað að vera þannig að útgerðarmaðurinn hafi rétt til að ráðstafa afla sínum, hvort hann vill nota hann í sína eigin fiskvinnslu, selja hann á fiskmarkaði eða hvernig hann vill gera það. Hann getur selt hann hæstbjóðanda ef svo ber undir.

Aðalatriðið finnst mér að menn horfi til þess að ráðstöfunarrétturinn er útgerðarmannsins og það eigi að gilda jafnræði milli íslenskrar og erlendrar fiskvinnslu.