131. löggjafarþing — 69. fundur,  9. feb. 2005.

Íslenskir fiskkaupendur.

487. mál
[12:27]

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Frú forseti. Ég tek undir með hv. þm. Einari Kristni Guðfinnssyni með að jafnræði milli fiskkaupenda erlendis og á Íslandi eigi að vera leiðarljós í þessum efnum. Þegar hæstv. ráðherra breytti reglugerðinni og steig þar hænuskref sem ég nefndi, sem ekkert gagn hefur gert, þá sagði m.a. í fréttatilkynningu sem ráðuneytið gaf út að ráðherrann vonaðist til að þetta ýtti undir frekari verðmætasköpun hér heima, skapaði fleiri störf í sjávarútvegi og yrði raunveruleg viðbót við þau störf sem falla munu til í sérstöku atvinnuátaki ríkisstjórnarinnar. Reglugerðin mundi taka gildi 15. apríl 2003.

Virðulegi forseti. Ég gagnrýndi áðan að þessi markmið hefðu ekki náðst og verð að lýsa yfir miklum vonbrigðum með svar hæstv. ráðherra, að hann ætli ekki að beita sér fyrir þessu. Ég spyr auðvitað: Hverra hagsmuna er verið að gæta hér? Bjó að baki eitthvað annað en kom fram í fréttatilkynningunni? Já, mér virðist það. Fréttatilkynningin er ágæt og þau markmið sem þar koma fram en störf og stefnumið ráðherrans eru allt annað. Það að útflytjendur þurfi að tilkynna sig Fiskistofu með 24 klukkustunda fyrirvara og það sé tilkynnt til þeirra sem hafa skráð netfang sitt inn að einhver afli sé að fara út virðist engu breyta. Fiskkaupendur hér á landi hafa reynt að bregðast við en það hefur ekki gengið upp. Kerfið sem ráðherrann beitti sér fyrir og koma þarna á er því handónýtt.

Hæstv. ráðherra sagði áðan að hærra verð fengist fyrir aflann á erlendum mörkuðum — sem sannarlega hefur komið fram — en hann orðaði það þannig að: „… hærra verð fengist fyrir aflann á erlendum mörkuðum en þeir hefðu líkast til fengið á innlendum markaði.“ Hann segir „líkast til“ og það er málið vegna þess að á þetta hefur ekki reynt.

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hæstv. ráðherra um eitt. Það á að gilda hið opna markaðshagkerfi í þessu eins og öðru. En mér sýnist ráðherra Sjálfstæðisflokksins, hæstv. sjávarútvegsráðherra, ekki beita sér fyrir því. Þess vegna er það verkefni okkar að halda áfram að inna eftir þessu og athuga hverra hagsmuna er verið að gæta í þessu sambandi.