131. löggjafarþing — 69. fundur,  9. feb. 2005.

Reiknilíkan fyrir rekstur sýslumannsembætta.

305. mál
[12:32]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir fyrirspurn á þskj. 333 sem er orðin nokkuð öldruð. Það er ekki við hæstv. ráðherra eða starfsmenn þingsins að sakast heldur mig sjálfa því vegna fjarveru minnar hefur fyrirspurnin ekki verið tekin fyrir.

Árið 1999 skipaði þáverandi dómsmálaráðherra nefnd um gerð reiknilíkans fyrir rekstur sýslumannsembætta. Samkvæmt erindisbréfi nefndarinnar var markvisst starf hennar að stuðla að sem bestri nýtingu fjármuna til rekstrar og þjónustu sýslumannsembætta og kerfisbundinni skiptingu fjármuna milli embættanna. Einnig átti að stefna að því að gera kostnað einstakra embætta samanburðarhæfan, að einingarkostnaður yrði sambærilegur að teknu tilliti til mismunandi aðstæðna.

Í október 2002 svaraði þáverandi dómsmálaráðherra, Sólveig Pétursdóttir, fyrirspurn minni um vinnulok nefndarinnar á þá leið að í upphafi ársins 2003 mætti vænta áfangaskýrslu nefndarinnar. Vinnan hefði reynst viðameiri en gert var ráð fyrir. Töf hennar mætti þó einkum rekja til athugunar nefndarinnar á löggæsluhluta embættanna þar sem vaktafyrirkomulag löggæslunnar væri mjög mismunandi eftir fjölda lögreglumanna, fjölda útibúa og stærð umdæma í ferkílómetrum. Engu að síður upplýsti ráðherra að reiknilíkanið væri þá, í október 2002, að stærstum hluta tilbúið.

Á þeim tímapunkti var helst horft til þess að nota líkanið til að skoða hvar helst bæri að leggja áherslu á úrbætur á fjárlögum til embættanna. Núverandi ráðherra hefur rætt um breytingar á starfi og skipulagi lögreglu- og sýslumannsembætta og má því ætla að vinna nefndarinnar sem skipuð var 1999 hafi verið nýtt við tillögugerð um framtíð sýslumannsembættanna og verkefni þeirra. Því spyr ég hæstv. ráðherra:

Hefur nefnd sem skipuð var 1999 um gerð reiknilíkans fyrir rekstur sýslumannsembætta lokið störfum? Ef svo er, hvenær skilaði nefndin af sér og hver var niðurstaðan varðandi fjárþörf og mannaflaþörf hjá einstökum embættum? Ef ekki, hvenær má vænta þess að nefndin ljúki störfum og verður skýrsla hennar rædd á Alþingi?