131. löggjafarþing — 69. fundur,  9. feb. 2005.

Reiknilíkan fyrir rekstur sýslumannsembætta.

305. mál
[12:38]

Kristján L. Möller (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að færa fyrirspurnina inn til Alþingis, til hæstv. dómsmálaráðherra. Hér hefur líka verið vitnað í þá skýrslu og niðurstöður úr nefndarvinnu sem ráðherra hefur verið með í gangi, þ.e. um nýskipan löggæslumála.

Á þeim stutta tíma sem við höfum vil ég leyfa mér að leggja eftirfarandi fyrirspurn fyrir hæstv. ráðherra: Er skýrslan ef til vill dulin aðferð til árásar á að fækka opinberum störfum á landsbyggðinni, eins og sýslumönnum, starfsmönnum sýslumannsembætta og lögreglumanna? Ég hef ekki lesið yfir alla skýrsluna en mér virðist að verið sé að ganga einhverja slíka göngu. Það kemur oft upp í huga minn að fyrrv. dómsmálaráðherrar, sérstaklega Sjálfstæðisflokksins, hafa oft haft það að keppikefli að leggja niður og fækka sýslumannsembættum. Er hér dulin árás á opinber störf á landsbyggðinni í þessum geira?