131. löggjafarþing — 69. fundur,  9. feb. 2005.

Brottvísun útlendinga úr landi.

483. mál
[12:44]

Fyrirspyrjandi (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Síðasta vor samþykktu þingmenn stjórnarflokkanna vægast sagt umdeilt frumvarp hæstv. dómsmálaráðherra um breytingar á lögum um útlendinga. Með þeirri lagasetningu var m.a. gerð sú breyting að útlendingar undir 24 ára aldri fengju ekki dvalarleyfi hér á grundvelli hjúskapar. Rökin fyrir þessari breytingu voru m.a. sögð verndarsjónarmið, þ.e. að vernda ætti þá sem minna mega sín gegn nauðungarhjónaböndum eða eins og segir í greinargerð með frumvarpinu þegar það var lagt fram, með leyfi forseta:

„Hér liggja þó enn ríkari verndarsjónarmið að baki og er þá aðallega byggt á reynslu nágrannaríkjanna þar sem algengt er meðal sumra hópa nýbúa að foreldrar ráðstafi börnum sínum í hjúskap. Meðal annars á grundvelli þessa, og með fyrirmynd í dönsku útlendingalögunum, er lagt til í 2. gr. að maki skuli vera eldri en 24 ára til að unnt verði að veita honum dvalarleyfi aðstandanda.“

Fyrirmyndin danska, sem hér um ræðir, er afar umdeild þar í landi og ekki til önnur dæmi um slík ákvæði í öðrum löndum. Stjórnarandstaðan gerði alvarlegar athugasemdir við þessa röksemdafærslu þar sem ekki þótti sýnt að þessi vandamál ættu við hér á landi þannig að slík verndarsjónarmið væru réttlætanleg við lagasetningu sem mismunar fólki hér á landi eftir uppruna. Ég segi „mismuna eftir uppruna“ því að Íslendingar geta gift sig 18 ára og fengið öll réttindi sem því fylgja en útlendingar þurfa að vera 24 ára.

Einnig er fullorðnum útlendingum hér á landi á aldrinum 18–24 ára mismunað og þeir standa ekki jafnir þeim sem eldri eru og fellt hafa hugi til Íslendinga. Það er einnig alvarleg mismunun. Ekki einungis hér á Alþingi voru gerðar athugasemdir við þetta ákvæði heldur komu mótmæli víða að sem ekki var tekið tillit til. Í umsögnum um frumvarpið kom t.d. fram að Lögmannafélagið lýsti sig andsnúið þessu ákvæði og vísaði m.a. í jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Fjöldinn allur af félaga- og mannréttindasamtökum mótmælti þessu einnig. Ljóst er að þessi regla getur haft veruleg áhrif á persónulegt líf útlendinga og persónufrelsi þeirra sem og maka þeirra og barna hér á landi.

Þetta lagaákvæði er það takmarkandi og óréttlátt og mismunar útlendingum hér á landi á grundvelli aldurs að mér þykir það afar hæpið. Mér finnst ástæða til að halda áfram á lofti stöðugri gagnrýni og fylgjast vel með því hvort þetta ákvæði geri það gagn sem menn ætluðu við setningu þess eða hvort það skilji að hjón í ástríku sambandi og jafnvel hvort börn séu skilin frá útlendu foreldri sínu vegna hinna ströngu laga. Ef svo er verður að mínu mati að afnema þessa reglu hið fyrsta.

Ég beini því fyrirspurn til hæstv. menntamálaráðherra … (Gripið fram í: Dómsmálaráðherra.) dómsmálaráðherra um framkvæmd svonefndrar 24 ára reglu í lögum um útlendinga í þremur liðum:

1. Hversu mörgum erlendum einstaklingum undir 24 ára aldri hefur verið vísað úr landi á grundvelli 13. gr. laga um útlendinga, nr. 96/2002, síðan breytingar á þeim tóku gildi síðastliðið vor?

2. Hversu margir þessara einstaklinga voru konur og hversu margir karlar?

3. Hversu margir þessara einstaklinga eiga börn hér á landi?