131. löggjafarþing — 69. fundur,  9. feb. 2005.

Brottvísun útlendinga úr landi.

483. mál
[12:52]

Fyrirspyrjandi (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það var greinilega ekki með röngu að ég kallaði hæstv. dómsmálaráðherra menntamálaráðherra. Mér þykir miður að hér hafi hæstv. dómsmálaráðherra eytt megninu af tíma sínum í að ræða misskilning minn á lögunum í stað þess að ræða við mig efnislega um það sem ræða mín fjallaði um, þ.e. þau grundvallarsjónarmið hvort þessi regla eigi raunverulega við hér á landi.

Nú er komin ákveðin reynsla á regluna og eins og fram kom í máli hæstv. dómsmálaráðherra hefur tveimur karlmönnum, sem eru giftir íslenskum konum, verið vísað úr landi, 24 ára og yngri. Annar þeirra á barn og hinn stjúpbarn. Þetta þykja mér háar tölur. Ég vil minna á að í umsögn Mannréttindaskrifstofu Íslands, þegar frumvarpið var til umræðu, kom fram að Mannréttindadómstóll Evrópu hefur túlkað 12. gr. mannréttindasáttmála Evrópu þannig að í réttinum til að stofna til hjúskapar felist einnig rétturinn til að búa saman.

Á Íslandi höfum við enga ástæðu til að setja svo ströng lög, sérstaklega undir þeim formerkjum að hér eigi að vernda einstaklinga gegn nauðungarhjónaböndum. Í ljós kemur að þegar þetta hefur átt við er um að ræða tvo karla sem hafa verið giftir íslenskum konum. Þetta hefur frekar átt við um karla en konur og hefur frekar verið beitt á karla en konur, en þegar raunveruleg nauðungarhjónabönd eiga sér stað er frekar um konur að ræða en karla.

Einnig vil ég ítreka að mér þykir alvarlegt ef slík regla, svo ströng regla, skilur að föður og barn.