131. löggjafarþing — 69. fundur,  9. feb. 2005.

Brottvísun útlendinga úr landi.

483. mál
[12:54]

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Frú forseti. Ég var ekki að setja ofan í við þingmanninn eða veita henni neinar þær ákúrur sem voru óréttmætar. Ég sagði að ég gæti ekki svarað fyrirspurninni af því að hún byggðist á röngum forsendum. Hvernig er hægt að ætlast til þess að ráðherra svari fyrirspurnum sem byggjast á röngum forsendum? (Gripið fram í.) Það verður að svara fyrirspurninni á réttum forsendum og með vísan til laga eins og þau eru. Ef hv. þingmenn vilja að ég svari hér út í hött get ég náttúrlega svarað fyrirspurnum sem eru út í hött þegar litið er til efnis þeirra eins og þær eru lagðar fram.

Háttvirtur þingmaður sagði að ég hefði ekki rætt málið á þeim forsendum sem þingmaðurinn vildi þegar ég svaraði fyrirspurninni. Um hvað vildi þingmaðurinn tala? Vildi hún t.d. tala um úrslit dönsku kosninganna þar sem mjög harkalega var tekist á um þetta ákvæði í dönsku lögunum? Við vitum hvernig úrslitin urðu þar. Þeir unnu á sem fluttu þann málstað að frekar þyrfti að líta til þess að menn laumuðu sér ekki inn í landið á fölskum forsendum, eins og tilraunir eru gerðar til hér og við vorum að koma í veg fyrir með breytingum á útlendingalögunum síðasta vetur.

Ég ætla ekki að ræða málefni þeirra tveggja einstaklinga sem hér koma við sögu. Ef menn vilja fara út í umræður um það í ræðustól á Alþingi þá skorast ég ekki undan því. Annar þeirra var tekinn með heróín í fórum sínum þegar hann var fluttur úr landi … (Gripið fram í.) Nei, en hvað var verið að tala um? Þegar verið er að ræða málið, á þá ekki að segja alla söguna? Á ekki að ræða málið eins og það er?

Ég get farið lengra. Ef menn vilja ræða málefni þessara tveggja einstaklinga get ég hiklaust gert það hér á þinginu. Ég held að þingmenn verði að hafa það í huga, þegar þeir ræða þessi alvarlegu mál, að það sé gert á þeim forsendum sem lagt er upp með. Það var gert hér af þessum fyrirspyrjanda eins og áður er lýst og ég svaraði á réttum forsendum. (RG: Ráðherra er eitthvað svekktur með lögin.)