131. löggjafarþing — 69. fundur,  9. feb. 2005.

Orkuvinnsla til vetnisframleiðslu.

125. mál
[13:07]

Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Já, ég hef hug á því að ræða við hæstv. iðnaðarráðherra um virkjanamálin og áformin með þau, þá fyrst og fremst í þetta sinn vetnisverkefnið. Því er ekki að neita að ríkisstjórnin hefur nokkuð haldið á lofti áformum sínum um vetnisvæðingu og hug sinn á því, eins og hefur verið sagt í mörgum erlendum tímaritum, að þetta litla hagkerfi verði e.t.v. fyrsta hreina hagkerfið í heiminum. Vetnisverkefnið svokallaða hefur vakið mjög mikla athygli alþjóðasamfélagsins, kannski ekki síst á Vesturlöndum. Í Bandaríkjunum hafa menn m.a. haldið fundi og horft til þess sem hér er verið að tala um. Við í utanríkismálanefnd höfum tekið á móti mörgum sendinefndum frá Evrópusambandinu þar sem þingmenn frá ólíkum löndum Evrópu koma til að kynna sér vetnisáformin og verkefnið stóra sem menn hafa svo miklar væntingar til.

Þá mætti ætla að hér væri rífandi gangur og ríkisstjórnin tilbúin til að grípa til aðgerða þegar tæknin leysir vandann við vetnisnotkunina þannig að það sé hægt að nota vetni á bíla og báta. Ég haga máli mínu þannig, virðulegi forseti, að ég treysti því að það sé alvara í vetnisumræðunni þó að stundum vakni efasemdir þar um vegna þess að 50% af loftmengun í heiminum er af völdum bíla, skipa og flugvéla. Nú höfum við fengið óhugnanlegar staðreyndir í skýrslum um loftslagsbreytingar á norðurslóð sem eru minnst 2,5 sinnum hraðari en annars staðar í heiminum. Okkur á að renna blóðið til skyldunnar með því að taka á í þessum málum.

Þá kem ég að þessu með virkjanirnar. Ég er alveg sannfærð um að ekki verði aftur byggð ofurvatnsaflsvirkjun. Þá er ég ekki að segja að fallvötn verði ekki virkjuð, bara ekki ofurvatnsaflsvirkjun. Það er alveg ljóst að sjónir beinast æ meira að jarðvarma. Það var mjög fín umfjöllun um það í Morgunblaðinu á sunnudaginn þar sem er fjallað um jarðvarma- eða vatnsaflsvirkjanir og áhugavert að fara yfir það. Það eru margir kostir við að virkja jarðvarmann og unnt að gera það án þess að ógna verulega náttúruverndarhagsmunum þó að líka séu undantekningar á því miðað við hvaða svæði yrði farið inn á.

Ríkisstjórnin er mjög upptekin af að virkja og selja orku til orkufreks iðnaðar og því spyr ég: Hvaða áætlanir hafa verið gerðar um að virkja fyrir vetni?