131. löggjafarþing — 69. fundur,  9. feb. 2005.

Orkuvinnsla til vetnisframleiðslu.

125. mál
[13:10]

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Þróun í vetnistækni hefur verið ör á undanförnum árum en þó er enn óljóst hvort vetni eða vetnissambönd verði sá orkuberi sem knýja muni farartæki framtíðarinnar. Líklegt er talið að ör þróun verði einnig á næstu árum í gerð hefðbundinna bifreiða er nota umhverfisvænni orkugjafa og minna eldsneyti og líklegt er að hefðbundnar bifreiðar verði í notkun áfram næstu áratugi, að því er séð verður.

Á síðustu árum hafa rannsóknir á notkun vetnis í samgöngum aukist gífurlega á alþjóðlegum vettvangi. Íslendingar hafa síðustu 5–6 ár verið framarlega í umræðu um vetni sem orkubera í samgöngum og tekið þátt í viðamikilli tilraun með notkun vetnisstrætisvagna hér á landi í eitt ár. Lýkur þeirri tilraun að ári. Ýmis önnur áform eru uppi um frekari rannsóknarverkefni á vetni hér á landi og þar má nefna tilraunir með notkun vetnis í smábátaflota landsins. Þá hafa íslensk stjórnvöld tekið virkan þátt í alþjóðlegu samstarfi innan Evrópusambandsins. Virk þátttaka okkar helgast m.a. af því að nánast öll olíunotkun okkar er bundin við notkun bifreiða- og skipaflotans. Öll önnur orkunotkun byggist á notkun hreinna orkulinda, vatnsorku og jarðgufa eins og þekkt er.

Möguleikar okkar til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda umfram núverandi losun felast að mestu í því að draga úr notkun olíu í samgöngum og skipaflotanum í framtíðinni. Allar þjóðir heims eru skuldbundnar samkvæmt loftslagssamkomulagi Sameinuðu þjóðanna til að draga eins og kostur er úr losun gróðurhúsalofttegunda og framlag okkar til vetnisþróunar og rannsókna, þótt lítið sé á alþjóðlegan mælikvarða, er vitnisburður um viðleitni okkar til að standa við skuldbindingar okkar við loftslagssamninginn.

Stefna íslenskra stjórnvalda hefur verið sú að styðja við þá rannsóknarstarfsemi sem hefur verið unnin hér á landi með margvíslegum hætti. Það er jafnframt stefna stjórnvalda að nýta íslenskar orkulindir til þess að draga úr umhverfisáhrifum og aukningu gróðurhúsalofttegunda. Það á ekki síst við í fyllingu tímans, þegar sá tími rennur upp að notkun á vetni sem orkubera verður almenn.

Gert er almennt ráð fyrir að hægari þróun verði í notkun vetnisbifreiða á næstu áratugum en á því tímabili er gert ráð fyrir örri tækniþróun og aukinni hagkvæmni í vetnisbúnaði, bæði í framleiðslu, geymslu og farartækjum. Ef vetni verður orkuberi samgangna í framtíðinni telur bandaríska orkumálaráðuneytið að fyrst á árabilinu 2025–2040 verði vetnisbílar samkeppnishæfir í verði við hefðbundin farartæki og að þá megi fyrst reikna með almennri eign slíkra bifreiða.

Talið er að um 1.600–1.700 gígavattstundir þurfi í raforku á ári til að framleiða vetni fyrir núverandi bifreiðaeign Íslendinga. Þetta er orka sem samsvarar orkugetu Búrfellsvirkjunar eða tveggja 100 megavatta jarðgufuvirkjana. Þessi orkuaukning mun verða á löngu árabili þannig að tiltölulega auðvelt mun reynast að nýta innlenda orkugjafa til að mæta þeirri þörf þegar sú stund rennur upp.

Við Íslendingar munum eiga enn um langt skeið mikið af ónýttum endurnýjanlegum orkulindum. Ekki hefur því verið talin ástæða til að gera sérstaka áætlun um orkuvinnslu vegna hugsanlegrar vetnisframleiðslu. Þá má benda á að þegar sá tími kemur, vonandi fyrr en seinna, að við þurfum að nýta orkulindir okkar til slíkrar framleiðslu verða allir núverandi samningar okkar um stóriðju útrunnir. Á tímabilinu þar til almenn vetnisnotkun hæfist gæfist okkur því kostur á að skoða aðra möguleika á nýtingu orkunnar ef sá kostur teldist heppilegri en að stækka virkjanir eða reisa nýjar.