131. löggjafarþing — 69. fundur,  9. feb. 2005.

Raforkuverð til garðyrkju.

415. mál
[13:38]

Kristján L. Möller (Sf):

Frú forseti. Ekki er annað hægt en að kenna í brjósti um hæstv. iðnaðarráðherra sem jafnframt er ráðherra byggðamála að koma hér og reyna að svara einhverju um þá fyrirspurn sem hér er komin fram. Hækkun til garðyrkjubænda. Hækkun til fiskeldisstöðva. Stórhækkanir á notendur á landsbyggðinni sem nota rafhitun til upphitunar. Hvað sagði svo ráðherra um daginn í skýrsluumræðunni um raforkuna? Draga úr hækkuninni á landsbyggðarfólk. Sei, sei, en 10% á að ganga yfir íbúa þar. Hvað gerist með garðyrkjuna? Það veit enginn enn þá og þetta langt um liðið.

Virðulegi forseti. Ég get ekki annað en kennt í brjósti um hæstv. byggðamálaráðherra að koma hér og reyna að snúa sig út úr þessu svari með tali um allt og ekki neitt. Aumt er það hlutverk og kaldar eru þær kveðjur. Sannarlega eru þær kaldar kveðjurnar frá Framsóknarflokknum til landsbyggðarfólks og þeirra sem stunda garðyrkjustörf eða fiskeldismanna í framhaldi af því sem hér hefur verið rætt um raforkumálin. Þetta átti aldrei að gerast sem er að ganga yfir okkur núna.