131. löggjafarþing — 69. fundur,  9. feb. 2005.

Raforkuverð til garðyrkju.

415. mál
[13:42]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég verð að segja að mér finnst það ákaflega aumleg og dapurleg útkoma hjá hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra og byggðamálaráðherra og reyndar hjá orkufyrirtækjunum líka að garðyrkjan okkar, græna stóriðjan okkar Íslendinga, skuli núna þurfa að sæta þessum stórhækkunum á raforkuverði sem er að verða ef allt stefnir í og það á sama tíma og sömu aðilar keppast við að boða okkur fagnaðarerindið um það að gefa erlendum stórfyrirtækjum rafmagn, sem eru að borga kannski um einn þriðja fyrir kílóvattstundina af því sem innlendum aðilum er boðið í heildsölu fyrir rafmagn. Ætli það sé nema um 1 kr. á kílóvattstund sem stóriðjan borgar um þessar mundir á sama tíma og heildsöluverðið frá framleiðendum í nýja fína raforkuumhverfi hæstv. iðnaðarráðherra eru kannski 3 kr. Þetta er nú niðurstaðan. Og vísar svo öllum vandanum á aumingja ræfils landbúnaðarráðherrann, sem er nú ekki með mikla sjóði til að leysa (Forseti hringir.) úr þessum vanda. Það er nú ekki stórmannlegt. Ég minni á það að hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) var sérstaklega spurð um þessa hluti fyrir áramót og hefði átt að svara þá.