131. löggjafarþing — 69. fundur,  9. feb. 2005.

Eignir Tækniháskóla Íslands.

228. mál
[13:52]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Katrín Júlíusdóttir hefur beint til mín tveimur spurningum er snerta eignir Tækniháskóla Íslands. Ég vil strax í upphafi mótmæla því sem hv. þingmaður sagði um vinnubrögðin, að þau hafi ekki verið nægilega góð. Ég vil einmitt meina að allt í sambandi við þetta ferli hafi verið afskaplega faglega gert. Þess var gætt að upplýsingar lægju fyrir og þeim miðlað. Mikil samvinna var viðhöfð við þá sem koma að þessum háskólum þannig að það skiptir mjög miklu máli og meginmálið er náttúrlega að hafa samskipti við þá sem þar eru.

Með sameiningu Tækniháskólans og Háskólans í Reykjavík verður til nýr og stór og öflugur háskóli sem mun eiga eftir að hafa mikil áhrif á íslenskt háskólaumhverfi á næstu árum. Þegar viðræður um sameiningu skólanna hófust lá fyrir að meginverðmæti Tækniháskólans fælist í starfsfólki hans og þeirri miklu reynslu sem þar var að finna á sviði tæknimenntunar.

Tækniháskólinn hefur verið starfræktur í leiguhúsnæði og eru aðrar eiginlegar eignir mjög óverulegar. Samkvæmt lauslegri athugun á eignaskrá Tækniháskóla Íslands nemur andvirði eigna Tækniháskólans tæplega 40 milljónum kr. og samkvæmt upplýsingum frá Fjársýslu ríkisins voru bókfærðar eignir Tækniháskólans í árslok 2003 metnar á um 32 milljónir að teknu tilliti til afskrifta. Þarna er um að ræða stóla, borð, hillur og kennslutöflur jafnt sem tölvubúnað og símkerfi. Þá eru ótaldar eignir sem kostað hafa undir 100 þús. kr. í innkaupum og virði þeirra því ekki bókfært í eignaskránni. Um er að ræða þar ýmsan húsbúnað og tæki.

Í viljayfirlýsingu um stofnun einkahlutafélags er tæki yfir starfsemi Háskólans í Reykjavík og Tækniháskóla Íslands, dagsettri 19. október 2004, er ákvæði þess efnis að menntamálaráðuneytið muni leggja hinum nýja háskóla til afnot af núverandi búnaði THÍ. Fordæmi eru fyrir slíku. Í verksamningi til að mynda milli menntamálaráðuneytis og Menntafélagsins ehf. vegna Stýrimannaskólans í Reykjavík og Vélskóla Íslands, dagsettum 5. desember 2002, segir m.a. í 3. grein:

„Verksali fær endurgjaldslaus afnot af eignum skólanna við gildistöku samningsins svo sem skrifstofutækjum, kennslutækjum, hermum og tengdum búnaði, hugbúnaði, vélum og áhöldum. Á þeim tíma skal liggja fyrir eignaskrá sem verkkaupi lætur taka saman og verksali staðfestir og heldur síðan við. Verksala ber að varðveita, viðhalda og endurnýja eignir sem hann tekur yfir.“

Þá vil ég einnig geta þess, virðulegi forseti, að það er sambærilegt fordæmi í samningi ráðuneytisins við til að mynda Hússtjórnarskólann á Hallormsstað.

Stefnt er að undirritun samnings samkvæmt 2. mgr. 19. gr. laga um háskóla sem taki síðan til kennslu og rannsókna við þennan nýja háskóla eigi síðar en í júní 2005. Rétt er að undirstrika að við undirbúning þess samnings mun eignaskráin verða vandlega yfirfarin og verðgildi eigna THÍ metið nákvæmlega. Gert er ráð fyrir að hinn nýi háskóli fái eignirnar, eins og ég gat um áðan, til endurgjaldslausra afnota — það er byggt á þeim fordæmum sem ég hef farið yfir — og að þær verði afskrifaðar í framtíðinni samkvæmt viðmiðunum er um slíkt gilda.