131. löggjafarþing — 69. fundur,  9. feb. 2005.

Tæknigreinar og verkfræði.

370. mál
[14:03]

Fyrirspyrjandi (Anna Kristín Gunnarsdóttir) (Sf):

Frú forseti. Samkvæmt yfirlýsingu við sameiningu Tækniháskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík er tilgangurinn með sameiningu skólanna einkum að efla verkfræði- og tækninám á Íslandi. Aðferðafræði hæstv. menntamálaráðherra við eflingu verkfræði- og tæknináms er umdeilanleg af mörgum ástæðum en augljóst að ef halda á uppi öflugu námi á háskólastigi þarf að tryggja viðeigandi undirbúning nemenda. Það er staðreynd að í framhaldsskólum landsins stunda miklu færri nemendur nám á raungreinasviði en á öðrum sviðum og í hópi nemenda á raungreinasviði eru stúlkur mun færri en piltar. Ef hæstv. menntamálaráðherra ætlar að ná settu marki að efla verkfræði- og tækninám á háskólastigi þarf tvenns konar hvatningu til auk þess sem efla þarf inntak raungreinanáms á framhaldsskólastigi. Það þarf að hvetja til fjölgunar almennt í raungreinanámi á framhaldsskólastigi og hvetja þarf stúlkur sérstaklega.

Fyrirhuguð stytting framhaldsskólans og tilfærsla námsefnis úr framhaldsskólum til grunnskólanna vekur upp margar spurningar um grundvöll fyrirhugaðrar eflingar tæknináms. Það hafa t.d. heyrst efasemdaraddir úr hópi skólastjórnenda um hvernig grunnskólar eigi að auka kennslu í stærðfræði á sama tíma og afar fáir sérmenntaðir kennarar í greininni eru að störfum innan grunnskólans í heild og enn færri með efnafræði- eða eðlisfræðimenntun enda eru þær greinar ekki á námskrá grunnskólans.

Því er mjög forvitnilegt að heyra hvernig hæstv. menntamálaráðherra hefur hugsað þessi mál í heild því að ekki er hægt að líta fram hjá tengslum skólastiganna við breytingar og alkunna að við uppbyggingu hvort heldur er námsgreina, skólastefnu eða þekkingar almennt þarf undirstaðan að vera réttilega fundin.

Ég spyr því hæstv. menntamálaráðherra: Hvaða ráðstafanir hyggst ráðherra gera til að auðvelda framhaldsskólunum að laga sig að aukinni áherslu á tækni- og verkfræðinám á háskólastigi?

Hef ég þá ekki minnst á grunnskólana sem ég tel líka að þurfi að skoða alveg sérstaklega með tilliti til uppbyggingar og eflingar verk- og tæknimenntun almennt.