131. löggjafarþing — 69. fundur,  9. feb. 2005.

Tæknigreinar og verkfræði.

370. mál
[14:15]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Varðandi síðustu orð hv. þingmanns þá er einmitt verið að vinna í þessum málum á heildstæðum grunni og m.a. verið að taka á þeim atriðum sem hv. þingmenn hafa komið hér inn á, sérstaklega varðandi kennaramenntunina, og það er m.a. verið að gera í hinum nýja sameiginlega háskóla. Hvað er verið að gera þar? Hvaða áhersla er lögð á kennaramenntunina í þeim háskóla? Jú, hún er tvenns konar. Áherslan er lögð annars vegar á lýðheilsu og hins vegar á hvað? Raungreinar. Það er sérstök áhersla lögð á að mennta raungreinakennara í hinum nýja háskóla. Síðan er auðvitað fagnaðarefni hvernig Kennaraháskóli Íslands hefur hug á að endurskipuleggja umhverfi sitt og þá kennaramenntun sem þar er í boði. Er til mikillar fyrirmyndar hvernig sá stórhugur hefur komið fram á þeim bæ.

Ég vil líka mótmæla því sem komið hefur fram í ummælum hv. þingmanns og í rauninni líka í umræðunni áðan varðandi aðferðafræðina við sameiningu háskólans, Tækniháskólans og Háskólans í Reykjavík. Það er alveg skýrt hver aðferðafræðin er. Hún er öllum ljós og það vita allir sem vilja vita eitthvað um þá sameiningu, upplýsingarnar liggja fyrir. En það er alltaf sama sagan, eins og ég gat um áðan, menn vilja sameina en ekki bara með þessum hætti. Mér finnst það miður, og menn verða þá að leiðrétta mig einhvern tímann síðar, því ef ég skil hv. þingmenn rétt eru þeir í rauninni andsnúnir þessari sameiningu sem um er að ræða. Ég get ekki skilið orð þeirra á annan veg en þann, miðað við þau orð sem hafa verið látin falla hér úr ræðupúltinu í dag, að þeir séu andsnúnir þessari sameiningu, a.m.k. eins og hún er framkvæmd.