131. löggjafarþing — 69. fundur,  9. feb. 2005.

Íslenskukennsla fyrir útlendinga í grunn- og framhaldsskólum.

357. mál
[14:21]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir með hv. fyrirspyrjanda að íslenskan er lykillinn fyrir hina nýju Íslendinga að okkar samfélagi. Það verður seint of oft endurtekið.

Í aðalnámskrá grunnskóla frá 1999 voru í fyrsta sinn sett ákvæði um íslensku sem annað tungumál fyrir nemendur með annað móðurmál en íslensku. Nemendur með annað móðurmál en íslensku hafa ólíkan menningarlegan, mállegan og námslegan bakgrunn eins og hv. fyrirspyrjandi kom inn á. Þessir nemendur hafa því misjafnar forsendur til að takast á við almennt nám í íslenskum skólum. Nemendurnir eiga samkvæmt aðalnámskrá grunnskóla rétt á því að fá sérstaka íslenskukennslu í grunnskólum með það að markmiði að þeir verði hæfir til að taka fullan þátt í skólastarfi og íslensku samfélagi.

Sveitarfélög og skólar hafa á undanförnum árum unnið á margbreytilegan hátt að skipulagi skólastarfsins og þróun þess í einstökum sveitarfélögum og skólum. Menntun nemenda með annað móðurmál en íslensku og fjölmenningarleg kennsla var eitt af forgangsverkefnum við úthlutun til að mynda úr þróunarsjóði grunnskóla 2002 og 2003. Veittir voru styrkir til fjölbreytilegra verkefna í grunnskólum með það að markmiði að stuðla að þróunarstarfi á þessu sviði. Veittir voru styrkir til að þróa kennsluhætti í fjölmenningarlegum grunnskóla, aðlaga námsefni að margbreytilegum nemendahópi, nýta upplýsingatækni til að miðla upplýsingum, setja námsgögn á netið fyrir þessa hópa og stuðla að almennri þróun í kennslu tvítyngdra nemenda. Gert er ráð fyrir að afrakstur þessara þróunarverkefna nýtist í skólakerfinu við frekari þróun síðar á þessu sviði.

Námsgagnastofnun hefur á undanförnum árum unnið að útgáfu námsgagna fyrir kennslu nemenda með annað móðurmál en íslensku með hliðsjón af markmiðum í aðalnámskrá grunnskóla.

Í Kennaraháskólanum er nú boðið upp á framhaldsnám á sviði fjölmenningarlegrar kennslu. Námið er ætlað kennurum og stjórnendum á öllum skólastigum. Meginmarkmið með náminu er að veita kennurum og stjórnendum tækifæri til að tileinka sér þekkingu, viðhorf og leikni sem þarf til að sinna menntun barna í fjölmenningarsamfélagi. Námið er fjölgreinalegt eða þverfaglegt og hugað er að almennum atriðum er varðar börn í fjölmenningarlegu samfélagi. Áhersla er m.a. lögð á réttindi barna, mál og málumhverfi, jafnt móðurmál sem erlend mál, aðlögun og sjálfsmynd, hugmyndafræði fjölmenningarlegrar kennslu og skólaþróun í samfélaginu. Námið er tengt hagnýtum viðfangsefnum í skólum. Æskilegt er síðan að aukin verði umfjöllun um þessa þætti í almennu grunnnámi kennara.

Nú þegar er hafinn undirbúningur að endurskoðun aðalnámskrár grunn- og framhaldsskóla, m.a. með tilliti til þess hvort hægt sé að stytta námstíma til stúdentsprófs og auka um leið samfelluna í námi. Menntamálaráðuneytið mun sérstaklega í tengslum við þá endurskoðun skoða þessa stefnu varðandi menntun nemenda með annað móðurmál en íslensku og með hvaða hætti sé heppilegast að skipa þeim málum á öllum skólastigum.

Það er kannski rétt að geta þess að nú þegar hefur verið skipaður sá hópur sem fjalla á um endurskoðun á þeim kafla í námskránni er varðar íslensku í grunn- og framhaldsskólum. Honum er m.a. ætlað að taka tillit til þessara atriða.

Í námi í íslensku sem öðru tungumáli eru tvær námsleiðir til í upphafi námstímans. Annars vegar er fjögurra eininga áfangi með áherslu á tal- og ritmál og íslenskan orðaforða, hugsaður fyrir þá nemendur sem hafa góða undirstöðu í eigin móðurmáli og námi almennt. Hins vegar eru tveir tveggja eininga áfangar með áherslu á íslenskan orðaforða, framburð, lestrarfærni, námstækni og notkun hjálpargagna, ætlaðir nemendum sem þurfa í rauninni frekari undirbúning og aðstoð í íslensku og námi almennt til að geta síðar stundað nám í íslenskum framhaldsskólum. Auk þessara áfanga er boðið upp á níu einingar eða þrjá áfanga í íslensku sem annað tungumál og er gert ráð fyrir mjög mismunandi áherslum í einum þeirra.

Sumum skólum reynist erfitt að bjóða íslensku sem annað tungumál, einfaldlega vegna þess hve nemendahópurinn er lítill en á almennri námsbraut er þó gert ráð fyrir minni hópum og þeir skólar sem hafa skilgreint slíka námsbraut hafa meiri möguleika á að halda uppi kennslu í þessari námsgrein. Skólar með mjög fáa nemendur geta einnig sótt um styrk til ráðuneytisins til þess að halda uppi kennslunni.

Framhaldsskólarnir gera sér æ betur grein fyrir sérstökum þörfum þessa hóps og veita honum sífellt aukinn stuðning. Þar koma til aukatímar í íslensku. jafningjaaðstoð, stoðtímar, aukin umsjón og einstaklingsráðgjöf. Einnig er veitt aðstoð í prófum, svo sem lengri prófatími eða munnleg próf. Erlendum nemendum í framhaldsskólum fer stöðugt fjölgandi og eru nú um 250 sem þurfa sérstakan stuðning í íslensku. Mun fjölgunin verða til þess að hópurinn verður sýnilegri. Íslenskukennslan, og annar stuðningur sem skólarnir veita, hefur styrkst og hefur aukist en hún þarf að gera það enn frekar og ég geri mér vonir um að með endurskoðun á námskránni munum við sjá tækifæri til þess að sinna þessum þörfum enn betur.