131. löggjafarþing — 69. fundur,  9. feb. 2005.

Stuðningur við krabbameinssjúklinga.

303. mál
[14:38]

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta er mjög þörf umræða og sakar ekki þó að talað sé oft um þessi mál.

Það er jákvætt að breyting hefur verið gerð á reglugerðinni um hjálpartæki þannig að menn hafi val um það hvort þeir fái sér t.d. hárkollu eða fari aðrar leiðir til að bæta sér það upp að hafa misst hárið vegna krabbameinsmeðferðar.

Styrkir frá Hjálpartækjamiðstöð Tryggingastofnunar eru ekki bara vegna hjálpartækja, þ.e. tækjanna sem slíkra, heldur er þarna líka t.d. um að ræða sérfæði. Þess vegna væri full ástæða til að skoða hvort slíkur styrkur gæti komið vegna húðflúra. Við erum reyndar nýbúin að tala um húðflúrið. Er hægt að gefa því fólki val um það hvort það fer í húðflutningameðferðina, sem kostar ríkið 50 þús., eða hvort það fær styrk hjá Tryggingastofnun vegna húðflúra sem kostar ekki nema 25 þús. kr. Síðan yrðu náttúrlega konurnar að taka þá ákvörðun sjálfar hvora leiðina þær fara og hvort þær fái þá þennan styrk. Þó svo að það sé vafi á þessari leið eins og hæstv. ráðherra sagði með húðflúrið (Forseti hringir.) er það samt leið sem konur eru að fara.