131. löggjafarþing — 69. fundur,  9. feb. 2005.

Stuðningur við krabbameinssjúklinga.

303. mál
[14:40]

Drífa Hjartardóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég tek undir að það er mjög þörf umræða sem fer hér fram og er aldrei of mikið um málið rætt. Það kom mér t.d. mjög á óvart þegar látin listakona, Anna Pálína Árnadóttir, vakti máls á því að ekki væri hægt að fá greitt fyrir tattóveringu augabrúna. Það kom mér mjög á óvart. Ég tel mikilvægt að svona úrræði séu til, auðvitað innan ákveðins ramma en að sjálfsákvörðunarréttur einstaklingsins sé virtur. Þetta hefur svo mikið að segja fyrir sjálfsvirðingu þeirra sem verða fyrir svona erfiðum sjúkdómum, þeir verða að byggja sig upp á annan hátt hvað útlit snertir. Ég held að það sé nauðsynlegt að þeir fái þetta val og ráðherra hefur það alveg í hendi sér að breyta reglugerðinni. Ég vona að hann geri það því að þetta er mjög mikilvægt mál, ekki síst fyrir konur.